Gulrótin 2017

04/05/2017

„Gulrótin“ er ný lýðheilsuviðurkenning sem ætlað er að hampa einstaklingi, hópi, fyrirtæki eða stofnun fyrir brautryðjendastarf í þágu heilsueflingar og bættrar lýðheilsu íbúa Mosfellsbæjar.

Heilsuvin og Mosfellsbær standa að baki viðurkenningunni sem felur í sér þakklæti fyrir frumkvæði og störf í anda lýðheilsu og á jafnframt að vera hvatning til allra á þessum vettvangi í bæjarfélaginu.

Viðmið fyrir tilnefningu

Viðurkenninguna geta þeir hlotið sem hafa stuðlað að einu eða fleiru af eftirfarandi:

  • Hafa haft forgöngu um hverskyns hreyfingu til bættrar lýðheilsu.
  • Hafa hvatt til bætts mataræðis eða stuðlað, með frumkvæði sínu, að heilsueflandi mataræði.
  • Hafa stuðlað að eflingu og/eða viðhorfsbreytingu á sviði geðheilsu og bættri sjálfsmynd einstaklinga.
  • Hafa á einn eða annan hátt hvatt til og/eða stuðlað að bættri líkamlegri, andlegri og félagslegri vellíðan og lífsgæðum íbúa Mosfellsbæjar.

Hvernig er hægt að tilnefna?

Tilnefningar skulu sendar í gegnum vef Heilsuvinjar, heilsuvin.is en þar er að finna sérstakt form til að fylla út.

Beðið er um nafn á þeim einstaklingi, hópi, fyrirtæki eða stofnun sem á að tilnefna auk rökstuðnings fyrir tilnefningunni.

Dómnefnd

Dómnefnd verður skipuð fimm fulltrúum sem koma frá Mosfellsbæ, Heilsuvin, Aftureldingu, Félagi lýðheilsufræðinga og Embætti landlæknis.

Opið verður fyrir tilnefningar til miðnættis 10. maí 2017.

Til baka