Félagsmiðstöðin ból vígir nýja hljómsveitaraðstöðu

17/07/2017

Á dögunum var opnuð ný hljómsveitaraðstaða fyrir unga Mosfellinga eftir nokkurra ára hlé. Aðstaðan er á neðri hæð félagsmiðstöðvarinnar Ból að Varmá. Þar til fyrir nokkrum árum var félagsmiðstöðin með slíka aðstöðu en síðustu ár hefur ekki verið hægt að reka slíkt sökum plássleysis. Fjölmargir tónlistarmenn og hljómsveitir hafa notið góðs af slíkri aðstöðu í gegnum árin og má þar helst nefna Kaleo, Vio og auðvitað miklu fleiri.

Starfmenn Bólsins eru gríðarlega spenntir fyrir þessari viðbót við starfið og hlakka til að taka á móti tónlistarmönnunum. Nú þegar hafa tvö bönd hafið æfingar, en gert er ráð fyrir því að allt fari á fullt með haustinu. Stefnt er að því að 2-3 tónlistarmenn hafi yfirumsjón með starfinu í vetur og aðstoði og fræði þá sem yngri eru.

Þau sem vilja koma og prufa geta sent tölvupóst á bolid@mos.is.

Til baka