Tilkynning frá Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis

20/07/2017

Föstudaginn 14. júlí varð vart við fiskadauða í Varmá. Skoðun sýnir að líklegt er að fiskarnir hafi drepist vegna skyndilegrar mengunar í Varmá vegna efnanotkunar á vatnasviði Varmár. Efnið hefur að öllum líkindum borist út í Varmá um regnvatnslagnir sem taka ofanvatn eða regnvatn í niðurföllum á götum og lóðum. Í einhverjum tilvikum geta niðurföll í bílskúrum og heitir pottar líka verið tengdir inná regnvatnskerfið og efni þaðan borist í Varmá.

Líklegustu efnin sem um ræðir eru: skordýraeitur, plöntueitur, sveppaeitur, klór, ammoníak og sterk þvottaefni. Ammoníak getur m.a. komið við útskolun á skítahaugum og rotþróm. Mengunin hefur mögulega komið frá svæðinu beggja vegna Varmár sunnan Reykjalundarvegar að Skammadalsvegi. Það er t.d. Grenibyggð og Furubyggð, Reykjahverfi, Teigssvæðið, Reykjalundur, Engjavegur og hús upp með Varmá frá Reykjalundarvegi.

Heilbrigðiseftirlitið biður þá sem mögulega kunna að hafa upplýsingar um mengunarvald í Varmá frá 13. til 14. júlí að hafa samband við Heilbrigðiseftirlitið. Mikilvægt er að finna orsök fiskadauðans svo hægt sé að koma í veg fyrir að svona atburður endurtaki sig.

Þá biður Heilbrigðiseftirlitið íbúa Mosfellsbæjar almennt um að gæta að því að niðurföll í götum og á plönum utan við hús og í sumum tilfellum í bílskúrum og frá heitum pottar eru tengd við regnvatnskerfið. Öll mengandi efni sem notuð eru og lenda ofan í þessum niðurföllum geta endað í viðkvæmum viðtökum og valdið tjóni á lífríkinu eins og dæmin sanna. Ef tjöruhreinsa á bíla ætti að gera það á þvottastöðvum eða á bensínstöðvum, ekki við heimahús.

Fiskadauðinn var bara einn af mörgum mengunaratburðum sem tilkynnt hefur verið um í Varmá í júní og júlí. Aðeins atburðurinn 14. júli olli fiskadauða, sem líta má á sem alvarlegustu röskun lífríkisins sem við sjáum. Aðrir mengunaratburðir valda þó án efa álagi á lífríki árinnar og breyta því og raska. Hér má finna lista yfir tilkynnta mengunaratburði (pdf) og niðurstöður mælinga (pdf). Heilbrigðiseftirlitið biður alla þá sem gætu haft gagnlegar upplýsingar um mengunarvalda að hafa samband símleiðis eða bréfleiðis til að hægt sé að skýra út hvað olli mengun.

Til baka