Mosfellsbær fagnar 30 ára afmæli – Opinber heimsókn forseta Íslands

08/08/2017

Dagana 9. til 27. ágúst verður boðið upp á skemmtidagskrá í bænum fyrir alla fjölskylduna. Forseti Íslands herra Guðni Th. Jóhannesson og kona hans Eliza Reid koma í opinbera heimsókn í Mosfellsbæ afmælisdaginn 9. ágúst. Bæjarstjóri og bæjarstjórn taka á móti forsetanum og fylgdarliði hans í skógræktinni við Hamrahlíð klukkan 9.30. Farið verður um bæinn og forsetinn heimsækir fólk og fyrirtæki. Milli klukkan 15 og 16 verður hópurinn í Álafosskvos. Í lok dags verður hátíðardagskrá í Hlégarði og allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir. 

BÆJARHÁTÍÐIN Í TÚNINU HEIMA
Dagskrá helgarinnar er stútfull af frábærum viðburðum stórum og smáum.

Hér má sjá dagskrá bæjarhátíðarinnar 

Þann 9. ágúst 1987 fékk Mosfellsbær kaupstaðarréttindi. Þá bjuggu samtals um 3900 íbúar í Mosfellshreppi. Mosfellsbær er nú sjöunda stærsta sveitarfélag landsins. Nýverið flutti tíuþúsundasti íbúinn í Mosfellsbæ. Það eru ung hjón með lítið barn en það er táknrænt fyrir íbúafjölgunina sem er að eiga sér stað í bænum um þessar mundir. 


Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Mosfellsbæ á síðustu árum. Hún felst bæði í uppbyggingu innviða og íbúðarhúsnæðis. Sem dæmi má nefna að byggt hefur verið hjúkrunarheimili og framhaldsskóli auk íþróttamannvirkja. Helgafellshverfi rís nú hratt og þar er einnig hafin bygging á nýjum grunnskóla.

Mosfellsbær er landmikið sveitarfélag þar sem náttúran spilar stórt hlutverk. Áhersla á heilsueflingu hefur verið áberandi síðustu misseri og aðstaða til útivistar og hreyfingar er fjölbreytt og aðlaðandi. Mannlífið einkennist af því að vera sveit í borg og samkvæmt niðurstöðu þjónustukönnunar Capacent eru íbúar ánægðastir í Mosfellsbæ. 

Nánari upplýsingar um afmælisdagskrána má finna á Facebook síðu Mosfellsbæjar. 

Skemmtidagskrá fyrir dagana 9. - 27. ágúst 

Til baka