Mosfellsbær 30 ára - Forsetahjónin komu í heimsókn á afmælisdaginn 9. ágúst

09/08/2017

Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, og kona hans, Eliza Reid, komu í opinbera heimsókn í Mosfellsbæ á afmælisdaginn 9. ágúst.

Bæjarstjóri og bæjarstjórn tóku á móti forsetanum og fylgdarliði hans í skógræktinni við Hamrahlíð klukkan 9.30. Skógræktarfélagið bauð upp á skógarkaffi og forsetahjónunum var gefið jólatré að eigin vali úr skóginum. Kennarar úr Skólahljómsveit Mosfellsbæjar blésu í lúðra og gerðu móttökuna hátíðlega og skemmtilega.

Bæjarfulltrúar fylgdu forsetanum upp í Mosfellsdal þar sem bændurnir á Hrísbrú tóku á móti hópnum og þar fór fram kynning á fornleifaverkefni. Afkomendur Halldórs Laxness ásamt starfsfólki Gljúfrasteins tóku á móti forsetanum í Húsi skáldsins.

Þá var farið í heimsókn í Dalsgarð þar sem Gísli Jóhannsson sagði frá blóma- og jarðarberjarækt sem þar fer fram og forsetafrúnni var færður einstaklega fallegur rósavöndur.

Snæddur var hádegisverður í nýrri íþróttamiðstöð Golfklúbbs Mosfellsbæjar þar sem öll aðstaða var til fyrirmyndar.

Leystur út með gjöfum

Eftir hádegi tóku nemendur Krikaskóla á móti forsetahjónunum. Vorboðarnir sungu á Eirhömrum ásamt hópi barna af Reykjakoti.

Eldri borgarar sýndu aðstöðu sína og gáfu Guðna og Elizu vettlinga að gjöf.

Að Reykjum tók Jón Magnús Jónsson á móti hópnum og greindi frá starfsemi Reykjabúsins og sögu staðarins. Þá var haldið í Álafosskvos þar sem Palli hnífasmiður var heimsóttur á sitt stórskemmtilega verkstæði og forsetinn var leystur út með gjöf frá Palla sem var lítill hnífur sem tilvalinn er til að kenna börnum að tálga.

Þegar komið var í Kvosina fór sólin að skína. Hafliði í Mosfellsbakaríi bauð upp á kaffi og glæsilegt meðlæti í brekkunni. Þórir listapúki nýtti tækifærið og færði forsetahjónunum mynd af þessu tilefni.

Hópurinn gekk þar næst í gegnum Kvosina og heilsaði upp á skátana sem voru að sýsla fyrir utan félagsheimili sitt. Á Stekkjarflötinni tók hópur barna úr Aftureldingu á móti forsetanum og félagið færði Guðna Th. merkta treyju að gjöf.

Hátíðleg dagskrá í Hlégarði

Í Hlégarði tók við hátíðardagskrá sem var stýrt af fyrrverandi þingmanni og bæjarstjóra, Ragnheiði Ríkharðsdóttur.

Bæjarlistamennirnir Greta Salóme, Diddú og Anna Guðný komu fram. Bæjarfulltrúar greindu frá gjöfum til bæjarins og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri færði forsetanum listaverk úr leir eftir móður sína Steinunni Marteinsdóttur, listakonu og bæjarlistamann. Gripurinn er mótaður eins og bók og skreyttur með skjaldarmerki Mosfellsbæjar og hefur tilvísun í Laxness og Mosfellskirkju.

Auk þess var forsetanum gefin Saga Mosfellsbæjar.

Þetta var hátíðlegur og einstakur dagur. Bærinn skartaði sínu fegursta og íbúar á öllum aldri fögnuðu og heilsuðu Guðna og fylgdarliði hans hvert sem hann kom. Allir þeir sem tóku á móti forsetanum voru sjálfum sér og bæjarbúum til mikils sóma.

Mosfellsbær hefur upp á mikið að bjóða og skipuleggjendur voru sammála um að eflaust hefði verið hægt að gera margra daga dagskrá þar sem haldið hefði verið áfram að heimsækja áhugavert fólk og staði.

Öllum sem tóku þátt í deginum eru færðar þakkir fyrir og bæjarbúum, sem nýverið urðu 10 þúsund, er óskað innilega til hamingju með afmælið.

Til baka

Myndir með frétt