Ný hringsjá vígð á toppi Reykjaborgar í tilefni að afmæli Mosfellsbæjar

24/08/2017
Þriðjudaginn 15. ágúst var ný hringsjá vígð á toppi Reykjaborgar í tilefni að afmæli Mosfellsbæjar.
Gengið var á fellið undir leiðsögn Skátafélagsins Mosverja.
Um 70 manns mættu í gönguna og var almenn ánægja með hringsjána sem þótti afar vel heppnuð.

Hringsjáin er lokahnikkur í verkefninu stikaðar gönguleiðir í Mosfellsbæ sem hófst 2009 sem samstarfsverkefni skátanna og Mosfellsbæjar en á upptök að rekja til ársins 2006 þegar hugmyndir að verkefninu komu fram.
Nú hafa verið stikaðir um 90 km, sett upp 10 bílastæði, 12 upplýsingaskilti, 8 fræðsluskilti, 30 vegprestar, 5 göngubrýr og göngukort prentað í um 25 þúsund eintökum.
Hringsjáin er 60 cm í þvermál, byggð upp á sérinnfluttri 6 mm þykkri koparskífu sem er krómhúðuð til varnar. Skífan er fest á stálsúlu og grjótvarða hlaðin í kringum súluna til að fá fallegt útlit.

Þegar ákveðið var að reisa hringsjá í Mosfellsbæ voru mörg fjöll skoðuð m.t.t. staðsetningar.
Fyrst var gengið á Helgafell og þótti sú staðsetning mjög góð og heppileg.
Síðan var gengið á Reykjafell og sú staðsetning sérlega góð og spennandi.
Einnig var gengið á Úlfarsfell sem þótti einstaklega spennandi staðsetning og frábær kostur.
Að lokum var gengið á Reykjaborg og þar voru aðilar sammála um að það væri besta staðsetningin enda útsýni yfir Mosfellsbæ einstakt til allra átta.
Kannski bara ástæða til að setja upp fleiri hringsjár þegar fram í sækir síðar meir.

Jakob Hálfdánarson tæknifræðingur sá um hönnum á skífunni, enda manna fróðastur um gerð hringsjáa.
Vélsmiðjan Orri smíðaði stálsúlu undir skífuna.
Garðmenn hlóðu vörðuna í kringum stálsúluna.
Gott samstarf umhverfissviðs/þjónstustöðvar og Ævars Aðalsteinsson hjá Skátafélaginu Mosverjum.
Landeigendur að Ökrum var sérstaklega þakkað fyrir að heimila staðsetningu hringsjárinnar á Reykjaborg.
Til baka

Myndir með frétt