Davíð Þór Jónsson bæjarlistamaður Mosfellsbæjar

29/08/2017
Mosfellsbær hefur útnefnt Davíð Þór Jónsson píanóleikara og tónskáld bæjarlistamann Mosfellsbæjar 2017. Viðurkenningin var afhent við hátíðlega athöfn í Hlégarði sunnudaginn 27.ágúst.

Davíð Þór hefur verið búsettur í Álafosskvos síðan 2013 en er fæddur á Seyðisfirði 1978. Davíð Þór er fjölhæfur og skapandi listamaður með sérstaka ástríðu fyrir spunatónlist. Hann hefur frá unga aldri leikið með allflestum þekktari tónlistarmönnum landsins og spilað á tónlistarhátíðum um heim allan. Hann stundaði nám í Tónlistarskóla FÍH og útskrifaðist vorið 2001. Árið eftir gaf hann út sína fyrstu sólóplötu, Rask. Auk þess að vera afkastamikill sem hljóðfæraleikari á margvísleg hljóðfæri, píanóleikari, tónskáld, útsetjari og upptökumaður fyrir fjölda tónlistamanna hefur hann einnig unnið náið með sviðslistarfólki, myndlistarmönnum, fyrir leikhús, við útvarpsleikrit og sjónvarpsverk.

Davíð Þór hefur hlotið margvísleg verðlaun, til dæmis Íslensku tónlistarverðlaunin, Grímuverðlaunin auk þess sem að tónlist hans úr kvikmyndinni Hross í Oss hefur verið verðlaunuð á kvikmyndahátíðum í Evrópu.

Menningarmálanefnd Mosfellsbæjar telur Davíð Þór vera vel af þessari viðurkenningu kominn og hlakkar til samstarfs við Davíð Þór, fjölhæfan og hæfileikaríkan tónlistarmann sem vill gjarnan hafa áhrif og láta gott af sér leiða í heimabyggð. Nefndin óskar Davíð Þór til hamingju með tilnefninguna og vel unnin störf og óskar honum jafnframt velfarnaðar í sínum störfum.
Til baka