Tvær nýjar rafhleðslustöðvar í Mosfellsbæ

25/09/2017

Aldrei hefur verið auðveldara að hlaða rafbílinn þinn. Í kennslumyndbandi frá Ísorku er sýnt í stuttu máli hversu einfalt það er að tengjast og hlaða rafbílinn þinn. Í samgönguviku nýliðinni setti Mosfellsbær upp tvær nýjar rafhleðslustöðvar fyrir rafbíla í Mosfellsbæ sem staðsettar eru við íþróttamiðstöðvarnar Lágafelli og við Varmá. Þriðja stöðin mun koma upp við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ síðar í haust. Mosfellsbær og Ísorka undirrituðu í sumar samkomulag til þriggja ára um uppsetningu og rekstur þriggja hleðslustöðva í Mosfellsbæ.
Stöðvarnar eru snúrulausar og eru 2x22 kW AC og eiga að geta hlaðið allar gerðir rafbíla á Íslandi.

Bubbi Mortens tónlistarmaður vígði rafhleðslustöðina við íþróttamiðstöðina við Varmá og fékk á sama tíma afhenda fyrstu rafhleðslusnúruna fyrir stöðina. Bubbi hefur verið stoltur eigandi rafbíls í talsverðan tíma og telur rafbíla klárlega vera framtíðina í bílasamgöngum.

Svona gerum við 

Hleðsla rafbíla og raflagnir
Mannvirkjastofnun hefur gefið út fræðslurit um hleðslu rafbíla og raflagnir og sem finna má hlekk í hér: "Hleðsla rafbíla og raflagnir"Mannvirkjastofnun hefur m.a. yfirumsjón með rafmagnsöryggismálum á Íslandi s og annast útgáfu á kynningar- og fræðsluefni er varðar rafmagnsöryggi.

Þar segir meðal annars að rafbíla má hlaða á öruggan máta með því að stinga kló á hleðslustreng í viðeigandi tengil (innstungu) eða með því að stinga tengibúnaði fasttengds hleðslustrengs í sérstakt inntak í bílunum.
Tenglar til heimilis- og ámóta nota, þ.e. hefðbundnir einfasa 16A tenglar, þola hámarksstraum (16A) aðeins í skamman tíma í senn og ætti því ekki að nota til hleðslu rafbíla nema hleðslustraumurinn sé takmarkaður verulega, t.d. við 8A.
Rafbíla skal hlaða frá tengistöðum sem sérstaklega eru til þess ætlaðir. Tengistaður er sá staður sem rafknúið farartæki tengist fastri raflögn. Nota skal sérstaka hleðslustrengi sem framleiðandi viðkomandi rafbíls útvegar og/eða samþykkir til hleðslu hans. Slíkur strengur skal fylgja nýjum rafbílum og hæfa þeim aðstæðum sem vænta má, t.d. með tilliti til áverkahættu og hita- og kuldaþols. Honum skal stinga í samband í viðeigandi tengli eða fasttengja raflögn á tengistað.
Ekki er leyfilegt að nota færanlega tengla, t.d. á framlengingarsnúru, til hleðslu rafbíla. Hver tengill skal einungis fæða einn rafbíl.

Til baka