Fjölmenni á opnu húsi fræðsluskrifstofunnar

09/11/2017

Rúmlega 70 manns mættu á fyrsta opna hús vetrarins hjá fræðsluskrifstofu Mosfellsbæjar þann 25. október sl. Að þessu sinni var fyrirlesari Bjarni Fritzson, rithöfundur, þjálfari og eigandi sjálfstyrkingarfyrirtækisins Út fyrir kassann. Í fyrirlestri sínum fjallaði Bjarni um efni sem hann hafði fyrr í mánuðinum farið yfir með unglingum Mosfellsbæjar á Geðheilsudeginum þann 5. okt.

Bjarni lagði upp með mikilvægi þess að hver og einn (börn, unglingar og fullorðnir) væru leiðtogar í sínu lífi, stefni alltaf að því að vera besta útgáfan af sjálfum sér og hvernig það hafi jákvæð áhrif á geðheilsu. Bjarni fjallaði einnig um mikilvægi þess að nýta tímann vel, taka meðvitaða ábyrga ákvörðun um eigið líf og mikilvægi þess að lifa í núinu.

Opnu húsin hafa fest sig í sessi hér í bænum og hafa verið í gangi í 15 ár. Miðað er við að þau séu haldin síðasta miðvikudag hvers mánaðar yfir vetrarmánuðina og í vetur verða opin hús haldin fjórum sinnum.

Næsta opna hús fræðsluskrifstofu verður haldið 29. nóvember og fjallar um systkinasambönd.

Til baka