Íbúasamtök stofnuð í Krikahverfi

09/11/2017

Íbúasamtök Krikahverfis voru formlega stofnuð á íbúafundi í Krikaskóla 24. október. Um 60 manns mættu á fundinn en fundarstjóri var Hafsteinn Pálsson. Meðal þeirra sem tóku til máls voru Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og Ásgeir Guðmundsson lögreglumaður á lögreglustöð 4. Fram fóru umræður um mikilvægi íbúasamtaka, tilgang og markmið. Aðalumræðuefnið var þó uppsetning öryggismyndavéla í hverfinu en þó nokkuð hefur borið á þjófnaði í hverfinu. Á næsta fundi íbúasamtakanna verður rætt um Sunnukrika en þar hefur lóðum verið úthlutað undir hótelbyggingu og aðra þjónustu tengda ferðamönnum.

Á stofnfundinum var kosin stjórn íbúasamtakanna. Hana skipa: Helena Kristinsdóttir formaður, Freyja Leópoldsdóttir ritari, Rakel Tanja Bjarnadóttir varaformaður, Ásgerður Inga Stefánsdóttir meðstjórnandi og Olga Einarsdóttir meðstjórnandi.

Til baka