Leirvogstunguskóli tók á móti góðum gestum

16/11/2017

Leirvogstunguskóli tekur þátt í samevrópsku verkefni sem styrkt er af Erasmus. Verkefnið ber yfirskriftina „Play to learn, learn to play“ og miðar að því að miðla kennsluaðferðum og menningu milli þjóðanna. 

Þær þjóðir sem taka þátt auk okkar eru Ítalía, Spánn, Portúgal, Grikkland og Írland. Verkefnið spannar tvö ár og í síðasta mánuði tók Leirvogstunguskóli á móti 15 gestum, kennurum og skólastjórum í vikuheimsókn frá umræddum löndum.

Gestirnir heillaðir af landi og þjóð

Heimsóknin tókst afar vel enda mikil vinna og undirbúningur sem liggur að baki. Til að mynda prjónaði starfsfólk húfur úr íslenskum lopa handa gestunum sem vakti mikla hrifningu. Börnin skreyttu skólann með heimatilbúnum fánum þjóðanna, þau sungu einnig lög fyrir gestina sem þau höfðu æft sérstaklega fyrir heimsóknina.

Gestirnir okkar voru sérlega heillaðir af landi og þjóð en ekki síður af leikskólanum okkar. Þeir höfðu sérstaklega á orði hvað það færi fram mikið, gott og faglegt starf í Leirvogstunguskóla og að börnin væru glöð og sjálfstæð.

Til baka