Álögur lækka og þjónusta efld

30/11/2017

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2018 samþykkt á bæjarstjórnarfundi þann 29. nóvember sl. Gert er ráð fyrir því að tekjur Mosfellsbæjar nemi 10.582 m.kr., gjöld fyrir fjármagnsliði nemi 9.268 m.kr. og að fjármagnsliðir verði 649 m.kr.

Áætlunin gerir ráð fyrir um 308 m.kr. rekstrarafgangi. Áætlað er að framkvæmt verði fyrir 1.595 m.kr. og þá er gert ráð fyrir því að íbúum fjölgi um 6% sem telst mikill vöxtur á alla mælikvarða.

Gert er ráð fyrir að framlegð verði 12,4% og að veltufé frá rekstri verði jákvætt um 1.105 m.kr. eða um 10,5%. Skuldir sem hlutfall af tekjum halda áfram að lækka og verða 102% í árslok 2018 sem er umtalsvert undir mörkum sveitarstjórnarlaga. 

Rekstur og starfsemi Mosfellsbæjar er þannig í góðu horfi, langtímasjónarmið höfð að leiðarljósi og sveitarfélagið nýtur í senn góðs af skilvirkum rekstri, flottu starfsfólki, fjölgun íbúa og góðu efnahagslegu árferði.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri:
„Fjárhagsstaða Mosfellsbæjar er traust og reksturinn einkennist af ábyrgð. Mjög miklar framkvæmdir verða í sveitarfélaginu á næsta ári en gert er ráð fyrir framkvæmdum fyrir um 1.600 milljónir. Þrátt fyrir það er skuldastaða sveitarfélagsins góð og skuldahlutfall lækkar. Það svigrúm sem er til staðar í rekstri Mosfellsbæjar mun nýtast öllum íbúum með einum eða öðrum hætti. Ég er sérstaklega ánægður með að góð samstaða hafi náðst í bæjarstjórn um að halda áfram að bæta í þjónustu við yngstu börnin og að unnt sé að nýta rekstrarlegt svigrúm til þess að hækka frístundaávísanir enda erum við heilsueflandi samfélag. Á sama tíma er unnt að lækka álögur á íbúa bæði með lækkun fasteignagjalda og heits vatns sem og leikskólagjalda svo dæmi séu tekin. Það má því segja að fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar 2018 sé uppbyggingaráætlun.“

Þjónusta við börn og unglinga aukin

Áfram verður unnið að því að auka þjónustu við 12-18 mánaða börn og plássum fjölgað um 20 á þeim ungbarnadeildum sem stofnaðar hafa verið. Frístundaávísun mun hækka um 54% og gjaldskrár leikskóla miðast við 13 mánaða aldur í stað 18 mánaða.

Þá verður unnið að verkefnum til að skapa enn betri aðstöðu í leik- og grunnskólum m.a. með því að efla tölvukost og aðrar umbætur. Jafnframt var ákveðið að almennt gjald í leikskóla lækki um 5% frá áramótum.

Álögur á einstaklinga og fyrirtækja lækka

Álagningarhlutföll fasteignaskatts, fráveitu- og vatnsgjalds lækka um 11% og lækkar kostnaður íbúa og af fasteignum sem því nemur auk þess sem lækkun fráveitu- og vatnsgjalds hefur áhrif til lækkunar fyrir fyrirtæki í bænum.

Þá verða ekki almennar hækkanir á gjaldskrám fyrir þá þjónustu sem bærinn veitir og lækka gjaldskrár því að raungildi milli ára þriðja árið í röð. Framlög til afsláttar á fasteignagjöldum til tekjulægri eldri borgara hækka um 50% milli ára. Loks mun verð á heitu vatni lækka um 5% þann 1. janúar 2018.

Fjárfest í innviðum

Stærsta einstaka framkvæmdin á árinu 2018 er bygging Helgafellsskóla en gert er ráð fyrir að um 1.200 m.kr. verði varið til þeirrar byggingar á árinu. Miðað er við að fyrsti áfangi skólans verði tekin í notkun í byrjun árs 2019.

Þá er unnið að undirbúningi framkvæmda við fjölnota íþróttahús á árinu 2018 með það að markmiði að þeim ljúki á fyrri hluta árs 2019.

Til baka