Tilkynning - yfirfærsla húsnæðisbóta til Íbúðalánasjóðs

05/12/2017
Frá og með 1. janúar 2018 færist framkvæmd og greiðsla húsnæðisbóta til Íbúðalánasjóðs. Vinnumálastofnun mun afgreiða öll erindi til og með 31. desember 2017 en eftir það er umsækjendum bent á að beina fyrirspurnum vegna húsnæðisbóta til Íbúðalánasjóðs.

Íbúðalánasjóður
hefur það að markmiði að yfirfærslan verði sem einföldust og þægilegust fyrir umsækjendur. Framkvæmd og greiðsla húsnæðisbóta mun vera með sama hætti og áður en helsta breytingin er að eftir 1. janúar 2018 ber að beina fyrirspurnum um húsnæðisbætur til Íbúðalánasjóðs, Ártorgi 1, 550 Sauðárkróki eða í síma 569-6900. Aðalskrifstofur Íbúðalánasjóðs eru að Borgartúni 21, 105 Reykjavík og er einnig hægt að beina erindum þangað.

Áréttað er að umsækjendur þurfa ekki að endurnýja umsóknina sína um áramótin ef gild umsókn er fyrir hendi og leigutímabili er ekki lokið samkvæmt umsókn. Stefni umsækjandi á að leigja áfram í leiguhúsnæðinu en leigusamningurinn er tímabundinn og rennur út um áramótin verður að endurnýja leigusamninginn og þinglýsa að nýju til að eiga áfram rétt á húsnæðisbótum. Umsækjendur sem skipta um leiguhúsnæði um áramótin verða hins vegar að sækja um aftur.

Áfram verður sótt um húsnæðisbætur á mínum síðum.

Sérstakur húsnæðisstuðningur
Sérstakur húsnæðisstuðningur er ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem eiga í erfiðleikum með að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra erfiðleika. Sótt er um sérstakan húsnæðisstuðning til Mosfellsbæjar.  

Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárstuðningur til greiðslu húsaleigu vegna samþykktra íbúða á almennum markaði til viðbótar við almennar húsnæðisbætur.
Umsóknir skulu berast fjölskyldusviði í gegnum íbúagátt .

Sérstakur húsnæðisstuðningur er reiknaður sem ákveðið hlutfall af almennum húsnæðisstuðningi þannig að fyrir hverjar kr. 1.000 fær leigjandi kr. 700 í sérstakan húsnæðisstuðning. Þó geta almennar húsnæðisbætur og sérstakur húsnæðisstuðningur aldrei numið hærri fjárhæð en samtals kr. 82.000 og aldrei farið yfir 75% af leigufjárhæð.
Um sérstakan húsnæðisstuðning gilda reglur sem bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt.
Hægt er að nálgast þær reglur með hér: Sérstakar húsaleigubætur

Til baka