Tekjur aukast, þjónusta vex og fjárfest í innviðum á sviði skóla og frístundamála

01/11/2018

Þjónusta við ung börn aukin og framkvæmdir hefjast við fjölnota íþróttahús.

Fjárhagsáætlun fyrir árin 2019-2022 var tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 31. október sl.

Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að tekjur nemi 12.224 m.kr., gjöld fyrir fjármagnsliði nemi 11.020 m.kr. og fjármagnsliðir 620 m.kr.

Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur verði 559 m.kr., að framkvæmdir nemi 1.820 m.kr. og að íbúum fjölgi um tæplega 5 % milli ára.

Áætlunin gerir ráð fyrir að framlegð verði 13 % og að veltufé frá rekstri verði jákvætt um 1.352 m.kr. eða um 11 %. Gert er ráð fyrir að skuldir sem hlutfall af tekjum lækki enn og að skuldaviðmið skv. sveitastjórnarlögum verði 99,5 % í árslok 2019.

Á næsta ári verða stærstu nýju innviðaverkefnin annars vegar framkvæmdir við byggingu fjölnota íþróttahúss með það að markmiði að starfsemi hefjist í húsinu haustið 2019 og hins vegar að halda áfram framkvæmdum við Helgafellsskóla en starfsemi hefst í fyrsta áfanga skólans í janúar 2019.

Aukin þjónusta

Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að komið verði á fót 20 nýjum plássum á leikskólum fyrir 12-18 mánaða börn og áfram verði varið verulegum fjármunum til frekari upplýsinga- og tæknimálum og önnur verkefni til að bæta aðstöðu í grunn- og leikskólum bæjarins.

Á sviði fjölskyldumála er lagt til að tekin verði upp frístundaávísun fyrir 67 ára og eldri og að framlög til afsláttar á fasteignagjöldum til tekjulægri elli- og örorkuþega hækki um 25%. Á sviði menningarmála er lagt til að framlag í lista- og menningarsjóð hækki um 20% og að auknum fjármunum verði varið til fræðslumála með áherslu á eflingu stoðþjónustu í skólum.

Á sviði umhverfismála verða framlög aukin til viðhalds húsa og lóða bæjarins og kallað eftir tillögum íbúa í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó.

Lækkun gjalda

Ekki er gert ráð fyrir almennri hækkun gjaldskráa fyrir veitta þjónustu og lækka gjaldskrár því að raungildi milli ára fjórða árið í röð auk þess sem leikskólagjöld lækka um 5%. Loks er lagt til að álagningarhlutföll fasteignaskatts, fráveitu- og vatnsgjalds verði lækkuð um 7%.

Áætlunin verðu nú unnin áfram og lögð fram í fagnefndum bæjarins. Seinni umræða um áætlunina fer fram miðvikudaginn 28. nóvember næstkomandi.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri:

„Það er okkur Mosfellingum ánægjuefni að rekstur og starfsemi Mosfellsbæjar er nú sem áður í góðu horfi. Sveitarfélagið vex og dafnar sem aldrei fyrr, reksturinn er skilvirkur og starfsfólk okkar stendur sig vel í að veita íbúum og viðskiptavinum okkar þjónustu.

Framtíðarsýn okkar er sú að Mosfellsbær sé fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag sem setur umhverfið í öndvegi og hefur þarfir og velferð íbúa að leiðarljósi.

Fjárhagsáætlun ársins 2019 er ætlað að endurspegla áherslur sem færa okkur nær þessari framtíðarsýn. Til að þessi framtíðarsýn gangi eftir þarf að ríkja jafnvægi í rekstrinum og gæta þess að vöxtur sveitarfélagsins sé efnahagslega, félagslega og umhverfislega sjálfbær.

Samantekið er staðan hjá Mosfellsbæ sú að íbúum fjölgar, tekjur aukast, skuldir lækka, álögur á íbúa og fyrirtæki lækka, þjónustu við íbúa og viðskiptavini eykst, innviðir eru byggðir upp til að mæta framtíðarþörfum en samhliða er rekstrarafgangur af starfseminni.

Þetta er um margt öfundsverð staða en um leið mikilvægt að muna að það þarf sterk bein til að þola góða tíma og ég tel að með þeirri fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram sé lagður grunnur að enn farsælli framtíð í Mosfellsbæ.“

 

pdf skjalSjá - Drög að fjárhagsáætlun 2019 – 2022. Vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn 28. nóv. 2018.

Til baka