Samningur til eflingar málfærni, málþroska og læsi leikskólabarna

15/11/2018

Þann 31. október var undirritaður samningur milli Menntamálastofnunar og Mosfellsbæjar um samstarf og samvinnu um að efla, málfærni, málþroska og læsi leikskólabarna í Mosfellsbæ. Í samningnum felst meðal annars að leikskólarnir muni leggja áherslu á snemmtæka íhlutun varðandi málfærni, málþroska og læsi og í samræmi við áherslur sem settar voru fram í Þjóðarsáttmála um læsi 2015.

Undirbúningur fyrir frekara lestrarnám
Markmið verkefnisins er að öll börn í leikskólum Mosfellsbæjar nái góðum ár-angri hvað varðar mál, tal og boðskipti og undirbúning fyrir frekara lestrarnám.
Lögð verður áhersla á að auka þekk-ingu og færni starfsfólks leikskólanna við að veita kennslu við hæfi og snemmtæka íhlutun þegar við á. Einnig er stefnt að því að auka samfellu milli skólastiga þannig að kennsla í grunnskólum geti byggt á niðurstöðum og áherslum frá leikskólum. Þá verður lögð á það áhersla að kynna verkefnið vel fyrir foreldrum með kynningum og fræðslufundi.
Áhugasömum foreldrum er bent á að á vef Menntamálastofnunar er mikið af fróðleik og alls konar ítarefni um eflingu málfærni og málþroska leikskólabarna. www.mms.is/laesisverkefni

Á myndinni má sjá Harald Sverrisson bæjarstjóra undirrita samninginn við Arnór Guðmundsson forstjóra Menntamálastofnunar ásamt stýrihóp verkefnisins sem samanstendur af tveimur tengiliðum í hverjum leikskóla og fulltrúum fræðsluskrifstofu og Menntamálastofnunar auk verkefnastjóra og ráðgjafa, Ásthildi B. Snorradóttur, talmeinafræðingi.

(Frétt/mynd: Mosfellingur 14. tbl. 17. árg. 08.11.2018)

Til baka