Vinna við gerð nýrrar umhverfisstefnu vekur athygli

16/11/2018

Nýlega kom út skýrsla á vegum norrænu fræðastofnunarinnar Nordregio um vinnu sveitarfélaga á Norðurlöndum við að ná fram heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Skýrslan ber heitið Global goals for local priorities: The 2030 Agenda at local level, og fjallar um sveitarfélög sem teljast frumkvöðlar í vinnu við útfærslu heimsmarkmiðanna.
Í skýrslunni er Mosfellsbær tekinn sem dæmi um sveitarfélag sem hefur tryggt að vinna við nýja umhverfisstefnu hafi hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og önnur sveitarfélög geti horft til. Sérstaklega er fjallað um það hvernig Mosfellsbær tengir markmið umhverfisstefnunnar við heimsmarkmiðin og samráð við og þátttöku íbúa við gerð hennar.

Kallað eftir hugmyndum íbúa
Umhverfisstefna Mosfellsbæjar hefur verið í vinnslu frá byrjun árs 2017 og nýskipuð umhverfisnefnd leggur nú lokahönd á stefnuna. Í vinnu við gerð umhverfisstefnunnar var boðað til opins fundar í mars 2018 þar sem kallað var eftir hugmyndum íbúa um það hverjar áherslur Mosfellsbæjar ættu að vera í umhverfismálum. Sérstaklega var kallað eftir hugmyndum á sviði skógræktar, landgræðslu, loftlagsmála, vistvænna samgangna, útivistar, sorpmála og náttúruverndar almennt.
Fundurinn heppnaðist vel og margar góðar ábendingar voru settar fram sem umhverfisnefnd hefur unnið úr við mótun umhverfisstefnu Mosfellsbæjar.

Umhverfisstefnan aðgengileg
Í skýrslu Nordregio er sérstaklega fjallað um þá ákvörðun sitjandi bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ 2014-2018 að ljúka ekki gerð umhverfisstefnunnar fyrir lok síðasta kjörtímabils heldur að fela nýrri umhverfisnefnd og bæjarstjórn að ljúka við gerð hennar. Þá er talið mikilvægt að lögð er áhersla á að umhverfisstefnan verði einkar aðgengileg íbúum.
Mosfellsbær hefur um árabil verið virkur þátttakandi í Staðardagskrá 21 og setti árið 2009 fram stefnu um sjálfbært samfélag í Mosfellsbæ auk framkvæmdaáætlunar og lista yfir verkefni hvers árs.
Nordregio telur Mosfellsbæ vera gott dæmi um það hvernig smærri sveitarfélög geti unnið að sjálfbærni í sínu sveitarfélagi með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna á grunni virkrar þátttöku íbúa í sátt við hagsmunaaðila.

(Frétt/mynd: Mosfellingur 14. tbl. 17. árg. 08.11.2018)

Til baka