Hvað þarf að hafa í huga þegar ung börn byrja í aðlögun

04/04/2019

SKÓLAHORNIÐ:
Þegar börn eru að byrja í ungbarnaúrræði (leikskólar/dagforeldrar) í fyrsta sinn þá eru þau oftast á aldrinum eins til tveggja ára.

Þessi tími í lífi barns skiptir miklu máli í tengslamyndun og öryggi í samskiptum fyrir þau. Talið er að á þessum aldri séu þau að byrja að slíta sig frá foreldrum sínum og að uppgötva að þau eru ekki órjúfanlegur hluti af þeim heldur sjálfstæðir einstaklingar.
Þau eru að stíga sín fyrstu skref í að verða sjálfbjarga og sýna gjarnan mikinn vilja til að kanna umhverfið. Þau vilja fara út og suður og elta það sem augað glepur hverju sinni og virðist spennandi.

Þau eru líka á sama tíma að læra að nota tungumálið og að styrkja hreyfingar og
göngu. Á þessu tímapunkti er mikilvægt að umönnunaraðilar mæti þessari þörf
þeirra og bjóði umhverfi sem er örvandi fyrir skynfæri þeirra og styður við þessa þroskaþætti.

Á sama tíma og þau eru að uppgötva sjálfið sitt þá er mikilvægt að þau upplifi öryggi í umhverfi sínu og að þau geti treyst umhverfinu. Það á bæði við hið
efnislega öryggi þe. að barnið fari sér ekki að voða en einnig að tilfinningalegt
og samskiptalegt öryggi sé til staðar. Þau verða að geta treyst því að þörfum þeirra
um nánd, umhyggju, blíðu og örugg tengsl sé sinnt.

Aðlögun barna að nýju umhverfi og nýjum umönnunaraðilum ætti ávallt að miðast við þarfir hvers barns. Almennt er miðað við eina viku í aðlögun en það getur tekið lengri tíma. Stundum kemur líka bakslag þ.e. að svo virðist sem barnið sé orðið sátt í nýja umhverfinu en svo fer barnið að mótmæla og vill ekki skilja við foreldra sína. Þá er gott, ef hægt er, að gefa barninu þann tíma sem það þarf og lengja í aðlöguninni.
Börnum líður best í öruggu umhverfi þar sem gleði og umhyggja ríkir ásamt
festu og rútínu.

Gunnhildur María Sæmundsdóttir,
Skólafulltrúi Fræðsluskrifstofu
Mosfellsbæjar

Til baka