Okkar Mosó 2019 fer vel af stað

05/04/2019

Hugmyndasöfnun fór fram nýverið. Alls bárust 113 tillögur að verkefnum í hugmyndasöfnuninni. Hugmyndirnar eru af öllum mögulegum og ómögulegum toga. Finna má hugmyndir af ærslabelgjum, gönguleiðum, merkingum, hjólabrautum, leikvöllum, leiktækjum, körfuboltavöllum, gosbrunnum, grillhúsum, snjallpálmatrjám og þannig mætti lengi telja.

Næstu vikurnar verða hugmyndir metnar af sérfræðingum á umhverfissviði Mosfellsbæjar, lagt mat á kostnað við hönnun og framkvæmd. Afrakstur þeirra vinnu verður framsetning á hugmyndum sem fara í kosningu meðal íbúa Mosfellsbæjar. Þær hugmyndir verða kynntar rækilega þegar að kosningu kemur.

Rafræn kosning um verkefni til framkvæmda fer fram dagana 17.– 28. maí næstkomandi. Þarf geta allir íbúar Mosfellsbæjar 15 ára og eldri tekið þátt.

Hlutverk íbúa verður að kjósa um þær hugmyndir sem þeir vilja fá til framkvæmda. Hver íbúi getur valið mörg verkefni fyrir allt að 35 milljónir króna og forgangsraða þeim. Niðurstaða kosninga mun síðan ráða hvaða tillögur koma til framkvæmda. Framkvæmdatími verkefna verður frá júní 2019 til október 2020.

Hægt er að skoða allar hugmyndirnar sem komu fram á hugmyndavef Okkar Mosó. Hægt er að koma með rök með á móti, velja sínar uppáhalds hugmyndir og velta vöngum yfir verkefnunum. Tekið verður tillit til umræðu og fjölda þeirra sem líkar við hverja hugmynd í mati hugmynda.

Til baka