Leikskólar í Mosfellsbæ fá góða gjöf.

10/07/2019

Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur er í  samstarfi við IKEA, LÝSI, Marel, Raddlist og hjónin Björgólf Thor og Kristínu Ólafsdóttur um að gefa öllum leikskólum á Íslandi þjálfunarefni sem bætir framburð barna, eykur orðaforða og undirbýr læsi.

Bryndís hefur starfað á Íslandi í rúmlega 30 ár sem talmeinafræðingur og hefur m.a. gefið út námsefni undir heitinu, Lærum og leikum með hljóðin, sem ætlað er öllum barnafjölskyldum og skólum. Námsefnið byggir á fagþekkingu talmeinafræðinnar, rannsóknum og reynslu Bryndísar  af því að vinna með börnum, foreldrum og fagfólki skóla. Efnið hefur hlotið ýmsar viðurkenningar.

Í tilefni af þessum tímamótum í starfi hefur Bryndís ákveðið að gefa efnið til allra leikskóla á Íslandi. Það var mögulegt með eigin framlagi og stuðningi ofangreindra fyrirtækja og einstaklinga sem öll leggja áherslu á að það þurfi að hlúa að íslenskunni og læsi íslenskra barna.

Allir  leikskólar á landinu, fá nú í sumar, heildstætt efni úr Lærum og leikum með hljóðin að gjöf til að nýta í starfi sínu með leikskólabörnum. Aukaefni eins og púsl, límmiðar og vinnusvuntur, sem styðja við hljóðanámið með fallegum stafamyndum, fylgir með í skólapökkunum. Einnig munu fimm íslensk smáforrit fyrir iPad vera gefin samhliða til allra skólanna og foreldra íslenskra barna.

Það er mikilvægt að leggja grunn að læsi frá unga aldri með áherslu á þá þætti sem rannsóknir sýna að skipta meginmáli fyrir framtíðarnám barna. Lærum og leikum með hljóðin kennir framburð hljóða, hljóðavitund og bókstafi, þjálfar hljóðkerfisþætti, eykur orðaforða og hugtakaskilning, auk þess að gefa fyrirmynd að setningagerð og mörgum málfræðiþáttum íslenskunnar.

IKEA, LÝSI, Marel, Björgólfur Thor og Kristín Ólafsdóttir gerðu þessa mikilvægu gjöf að möguleika í samstarfi við Bryndísi talmeinafræðing og við kunnum þeim bestu þakkir fyrir.

Til baka