Góður gangur í endurbótum og viðgerðum Varmárskóla

15/08/2019

Unnið hefur verið að endurbótum og viðgerðum á húsnæði yngri- og eldri deildar Varmárskóla í sumar og sér nú fyrir endann á þeirri framkvæmdahrinu sem staðið hefur yfir frá því í júní.

Fjórir verktakar hafa unnið að verkefninu og hefur starfi þeirra miðað vel áfram undir sameiginlegri verkstjórn umhverfissviðs Mosfellsbæjar með faglegum stuðningi frá verkfræðistofunni EFLU.

Staðan í eldri deild

Ístak er þessa dagana að ljúka sinni vinnu við starfsmannarými og eldhús eldri deildar Varmárskóla. Vinna við að byggja upp þessi rými er því mjög langt komin og byrjað að flytja tæki að ný inn í eldhúsið og verið að mála önnur rými. Þá hefur gengið vel að lagfæra og þétta veðurkápu hússins og er þeirri vinnu alveg lokið.

Staðan í yngri deild

Verktakafyrirtækin Pétur og Hákon ehf og ÁS verktakar sem unnið hafa í sumar við endurnýjun á þökum, bæði innan sem utan í suðvestur álmu Varmárskóla sjá nú fyrir endann á þeirri vinnu. Einnig stendur til að skipta um glugga í álmunni en vegna seinkunnar á framleiðslu þeirra er ráðgert að þeirri vinnu ljúki síðar í haust og verður það gert í samráði við skólastjórnendur og umhverfissvið bæjarins. Miðað er við að gluggaskiptin fari fram í vetrarfríinu.

Verktakafyrirtækið Kappar eru að vinna í kjallara álmunnar. Þar miðar framkvæmdur vel og hafa öll salerni verið endurnýjuð ásamt tækjum auk þess hefur epoxý verið sett á gólf og veggi. Vinna við lagfæringu á útveggjum kjallarans er langt komin og eru áætluð verklok um miðja næstu viku.

Endurbætur utanhúss í starfsmannaálmunni standa þannig að verið er að ljúka við múrhúðun á húsinu og verður það svo málað í framhaldinu. Töluverð endurnýjun fer fram á þaki álmunnar og er áætlað að því ljúki í lok næstu viku. Vinnupallar sem standa við húsið vegna framkvæmda verða klæddir með háum plötum til að hindra aðgang barna að pöllunum og til samræmis við kröfur Vinnueftirlitsins.

Umhverfissvið mun í nánu samstarfi við verktakann tryggja að allur aðbúnaður í kringum framkvæmdir verði þannig að öryggi nemenda og starfsfólks sé tryggt í hvívetna.

Samvinna umhverfissviðs, verktaka og EFLU hefur verið lærdómsrík og gefandi fyrir alla aðila. Komi til þess að ekki verði unnt að klára allan lokafrágang innanhúss eins og málun og annað smálegt, áður en kennsla hefst, þá munu skólastjórnendur og umhverfissvið í samvinnu við starfsmenn skólans lágmarka röskun á skólastarfi.

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir fagstjóri hjá verkfræðistofunni EFLU

„Framkvæmdir og úrbætur í Varmárskóla hafa gengið afar vel í sumar þar sem samstarfsaðilar hafa lagt sig fram við endurbætur og viðgerðir. Að okkar mati hefur hvergi verið hikað við að gera skólann enn betri í aðgerðum sumarsins. Samstarf á milli aðila hefur verið til fyrirmyndar í verkefni sem kallar á þétta samvinnu og miðlun þekkingar og reynslu. Úttekt EFLU á Brúarland er því sem næst lokið og gera má ráð fyrir því að við skilum úttektarskýrslu á næstu vikum. Varðandi lausar stofur þá lauk úttekt þeirra í júní og til stóð að hefja lagfæringar þar en verktakar Mosfellsbæjar hafa ekki náð að fara inní þau rými hingað til. Þær stofur eru því næst á dagskrá um leið og stóru framkvæmdinni er lokið. Við gerum ráð fyrir því að í þeim stofum verði opnað inn í veggi og lagfært og því má gera ráð fyrir afmarkaðri röskun á skólastarfi í þeim stofum þegar þar að kemur.“

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar

„Við hjá Mosfellsbæ fögnum því að verktökum okkar, í þéttri samvinnu við umhverfissvið, skólastjórnendur og starfsmenn EFLU, hafi tekist að sigla þeim umfangsmiklu endurbótum og viðgerðum á Varmárskóla sem fram fóru í sumar í farsæla höfn. Á fundi með foreldrum í júní sögðum við að áhersla yrði lögð á að framkvæma þetta allt í sumar en við bentum líka á að ekki væri útilokað að hluti verkefna færðust eitthvað inn á starfstíma skólans. Ég treysti skólastjórnendum til þess að leiða til lykta þau úrlausnarefni sem lokahnykkurinn í framkvæmdunum kallar á miðað við stöðuna nú um miðjan ágúst.“

 

Til baka