Glæsilegt aðkomutákn vígt við Úlfarsfell

07/10/2019

Á 30 ára afmæli bæjarins hinn 9. ágúst 2017 var tekin ákvörðun um að efna til hönnunarsamkeppni um aðkomutákn Mosfellsbæjar.

Alls bárust 34 tillögur en höfundar vinningstillögunnar eru þau Anna Björg Sigurðardóttir arkitekt og Ari Þorleifsson byggingafræðingur. Í umsögn um vinningstillöguna segir m.a.: „Stílhrein og falleg tillaga sem sækir á óhlutbundinn hátt í náttúruna, ásamt því að sækja í rótgróið merki Mosfellsbæjar eftir Kristínu Þorkelsdóttur. Áhugaverður skúlptúr sem vísar til þriggja innkomuleiða Mosfellsbæjar, þá þrjá staði sem fyrirhugað er að staðsetja merkið á og gefur möguleika á fjölbreytilegum útfærslum.“

Fyrsta aðkomutáknið var vígt við Úlfarsfell í tengslum við alþjóðlega samgönguviku sem Mosfellsbær tók að venju þátt í, dagana 16.- 22. september síðastliðinn.

Stefnt er að því að vinningshugmyndin verði framkvæmd á þrennum bæjarmörkum, frá Reykjavík, frá Þingvallavegi og frá Kjalarnesi.

Helgafellið sýnir m.a. grýtta fjallshlíð sem unnt er að tákna með steypu. Úlfarsfellið er skógi vaxið og viðurinn táknmynd þess. Loks er Leirvogsáin fljótandi vatn sem er táknað með gegnsæjum málmi. Nýja aðkomutáknið verður þannig skúlptúr sem samanstendur af þessum þremur efnum sem eru lýsandi fyrir hvern aðkomustað. Hugmyndin felur líka í sér að hæð hvers efnis verði mismunandi eftir staðsetningu aðkomutáknsins.

Til baka

Myndir með frétt