Opinbert hlutafélag stofnað um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu

09/10/2020

Ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes, hafa gengið frá stofnun opinbers hlutafélags sem ber heitið Betri samgöngur ohf. um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

Alþingi samþykkti í sumar lög um sem heimiluðu stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Nýja félagið mun hafa yfirumsjón með framkvæmdum vegna uppbyggingar samgangna og fjármögnun þeirra samkvæmt samgöngusáttmálanum sem er hluti af samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2034.

„Nú er okkur ekkert að vanbúnaði við að fara á fullt í þá vegferð að umbreyta samgöngum á höfuðborgarsvæðinu okkur öllum til heilla. Verkefnið er vel undirbyggt og við sjáum til lands í fjármögnun þess þrátt fyrir víðsjárverða tíma í opinberum fjármálum. Þessi vegferð er studd af meginþorra bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ og það er mitt mat að verkefnið varði lífsgæði bæjarbúa, sé til þess fallið að stytta þann tíma sem fer í ferðalög innan höfuðborgarsvæðisins auk þess að hafa jákvæð áhrif á markmið stjórnvalda í loftslagsmálum. Allt eru þetta þættir sem falla vel að áherslum í umhverfisstefnu Mosfellsbæjar og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Ríkið mun eiga stærstan hlut í félaginu, eða 75%, en sveitarfélögin sex ráða yfir 25% hlut sem skiptist eftir stærð þeirra. Félagið mun einnig, með sérstökum samningi, taka við landi ríkisins að Keldum eða öðru sambærilegu landi og þeim réttindum sem því tengjast og sjá um þróun þess í samvinnu við skipulagsyfirvöld með það að markmiði að hámarka virði landsins og uppbyggingu þess. Afkoma af þróun landsins verður nýtt til að fjármagna framkvæmdir og rekstur Betri samgangna ohf. Hluthafasamkomulag og samþykktir félagsins hafa verið samþykktar í sveitarstjórnum allra hlutaðeigandi sveitarfélaga.

Frétt á vef Stjórnarráðs Íslands.

Til baka