Lokanir og takmarkanir vegna COVID-19

25/03/2021

Ný reglugerð heilbrigðisráðherra tók gildi á miðnætti 25. mars og er sett í kjölfar hópsmita af breska afbrigðinu af COVID-19 sem er talið meira smitandi en þau afbrigði sem hafa greinst áður á landinu.

Vegna þessa hefur skólahaldi verið aflýst í grunnskólum og tónlistarskólum. Leikskólar munu starfa með mögulegum takmörkunum sem leiða af reglugerðinni, en hún heimilar aðeins að tíu fullorðnir einstaklingar séu samankomnir í hverju sóttvarnarhólfi. Börn sem fædd eru fyrir 2015 eru undanskilin reglunum. Til að innleiða breytt skipulag tóku sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og Mosfellsbær þá ákvörðun að halda starfsdag á leikskólum til hádegis í dag fimmtudaginn 25. mars.

Mosfellsbær mun grípa til eftirfarandi ráðstafana samkvæmt reglugerð um takmörkun á skólastarf vegna farsóttar sem gildir frá 25. mars til 31. mars 2021:

  •  Grunnskólar í Mosfellsbæ loka.
  • Listaskólinn lokar (tónlistardeild, skólahljómsveit og myndlistarskólinn).
  • Félagsmiðstöðin Ból lokar – allar starfsstöðvar.
  • Ungmennahúsið Mosinn lokar.
  • Frístund í grunnskólum lokar.
  • Leikskólar verða áfram opnir á grundvelli reglugerðarinnar og á það einnig við um þær leikskóladeildir sem eru í samþættum leik- og grunnskólum.

Samkvæmt reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem gildir til 15. apríl 2021:

  • Íþróttamiðstöðvar að Varmá og Lágafelli loka (sundlaugar, íþróttahús og líkamsrækt). 
  • Íþróttir sem krefjast meiri nálægðar en 2 metra milli einstaklinga eða þar sem hætta er á snertismiti vegna sameiginlegs búnaðar eru óheimilar.

 

Þjónusta fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar

Ráðgjafar fjölskyldusviðs munu leggja áherslu á rafrænar lausnir í viðtölum, svo sem í gegnum fjarfundabúnað eða með símtölum þar sem því verður við komið. Viðtöl sem búið er að skipuleggja á þeim tíma sem boðaðar lokanir eru geta riðlast vegna skertrar viðveru ráðgjafa á bæjarskrifstofu. Haft verður samband við alla sem þarf að bjóða nýja viðtalstíma eða ef þeir fara fram í breyttri mynd.

Félagsstarfið er opið föstudaginn 26. mars kl. 13:00-16:00 og í Dymbilvikunni kl. 11:00-16:00. Fjöldatakmörkun miðast við 8-10 manns og hámark 2 tímar á dag fyrir hvern og einn. Skrá þarf niður nafn og símanúmer við mætingu. Námskeið þar sem eru færri en 10 einstaklingar halda áfram, önnur eru lokuð meðan á takmörkun stendur. Eftir páska er opnunartíminn mán. - fim. kl. 11:00-16:00 og fös. kl. 13:00-16:00.

Notendur sem nýta sér matarþjónustu í Eirhömrum eru hvattir til að óska eftir því að fá heimsendingu matar í stað þess að mæta í Eirhamra.

 

Bæjarskrifstofur Mosfellsbæjar - þjónustuver

Þjónustuver Mosfellsbæjar verður áfram opið en gestir verða að vera með grímur. Mosfellsbær leggur sem fyrr megináherslu á að við nýtum okkur rafrænar leiðir eins og tölvupóst mos@mos.is, netspjall á vef Mosfellsbæjar, mos.is og síma þjónustuvers 525-6700.

Til baka