Hreinsunarátak í Mosfellsbæ 15. apríl til 6. maí

13/04/2021

Dagana 15. apríl - 6. maí verður hreinsunarátak í Mosfellsbæ enda vorið á næsta leiti. Á því tímabili eru íbúar Mosfellsbæjar hvattir til að huga að umhverfinu og hreinsa í kringum hús sín og næsta umhverfi.

Hreinsun gróðurs og lóða

Meðan á hreinsunarátakinu stendur er gott tækifæri fyrir íbúa að taka til hendinni í garðinum og snyrta runna og beð og eru þeir sérstaklega hvattir til að klippa hekk og tré sem ná yfir gangstéttar og stíga.

Gámar fyrir garðaúrgang verða aðgengilegir á þessu tímabili í hverfum bæjarins á eftirtöldum stöðum:

 • Holta- og Tangahverfi - Neðan Þverholts (milli Akurholts og Arnartanga).
 • Höfða og Hlíðahverfi - Vörubílastæði við Bogatanga.
 • Teiga- og Reykjahverfi - Skarhólabraut ofan Reykjavegar og við Sunnukrika.
 • Hlíðartúnshverfi - Við Aðaltún.
 • Helgafellshverfi - Efst í Brekkulandi og við Snæfríðargötu.
 • Leirvogstunga - Á stæði við stoppistöð á Tunguvegi.
 • Mosfellsdalur - Á bílastæði við Þingvallaveg.

 

Gatna- og stígahreinsun

Á þessu tímabili mun einnig fara fram þvottur og sópun gangstétta og gatna bæjarins. Í fyrstu verða stofngötur og stígar ásamt stofnanaplönum sópuð og í framhaldi verður farið inn í hverfi bæjarins og verða merkingar settar á áberandi staði áður en sú vinna hefst. Til að þetta verði sem best gert þurfum við á aðstoð íbúa að halda með því að leggja ekki ökutækjum eða öðrum farartækjum á götum eða gangstéttum meðan á hreinsun stendur.

Ennfremur eru bæjarbúar hvattir til að hreinsa í kringum híbýli sín og fá aðstoð starfsmanna þjónustumiðstöðvar í síma 525-6700 til að fjarlægja bílhræ og stærri hluti.

Eftirtalda daga verða gatnahreinsunarmenn að störfum í hverfunum:

 • 15. apríl - Reykja- og Krikahverfi.
 • 16. apríl - Teiga- og Helgafellshverfi.
 • 19. apríl - Holtahverfi.
 • 20. apríl - Tangahverfi.
 • 21. apríl - Hlíða og Hlíðartúnshverfi.
 • 23. apríl - Höfðahverfi.
 • 26. apríl - Leirvogstunguhverfi.

 

Hreinsunardagar á opnum svæðum 16. - 18. apríl

Helgina 16. - 18. apríl verður ráðist í hreinsunarátak á opnum svæðum bæjarins og meðfram nýbyggingarsvæðum. Afturelding og skátafélagið Mosverjar munu að venju aðstoða við hreinsunina og taka vel til hendinni.

Allir íbúar Mosfellsbæjar eru hvattir til að taka þátt í hreinsunarátaki Mosfellsbæjar og hjálpast að við að gera bæinn fallegan og snyrtilegan fyrir sumarið.

- Umhverfissvið Mosfellsbæjar

Til baka