Hjólasveinar og meyjar gleðjast

21/12/2012

Nýr stígur tengir Mosfellsbæ og ReykjavíkNýr stígur tengir Mosfellsbæ og Reykjavík

Hjólasveinar og meyjar glöddust innilega í dag er nýr hjóla- og göngustígur milli Mosfellsbæjar og  Reykjavíkur var formlega tekinn í notkun af borgarstjóra, bæjarstjóra Mosfellsbæjar og vegamálastjóra. Eftir að klippt hafði verið á borða á skjólgóðum stað á stígnum stigu hjólasveinar og meyjar á reiðhjól sín og héldu með klingjandi bjölluhljóm í átt til Reykjavíkur.

Nýi stígurinn er góð samgöngubót og er hann hluti af stofnstígakerfi höfuðborgarsvæðisins. Stígurinn gerir hjólreiðar að raunhæfum valkosti allt árið þeim sem eiga erindi í og úr Mosfellsbæ á degi hverjum til dæmis vegna vinnu.

Göngu- og hjólastígurinn er tilvalinn til útivistar ekki síst í vetur en í  hópi hjólasveinanna voru margir sem stunda hjólreiðar allan ársins hring.  Hjólreiðafólk er hvatt til að nota bjöllur sínar til að gera gangandi viðvart ekki síst nú í skammdeginu. Í vor þegar veður leyfir verður gengið frá yfirborðmerkingum til að aðskilja gangandi og hjólandi.  Einnig er eftir að ganga frá hraðahindrun á aðkomuveg að Bauhaus til að tryggja enn frekar öryggi hjólafólks og gangandi vegfarenda.

Vegagerðin, Mosfellsbær og Reykjavíkurborg stóðu sameiginlega að framkvæmdum við stíginn sem fólust í tengingu stígakerfa sveitarfélaganna með lagningu stofnstígs frá athafnasvæði skógræktar Mosfellsbæjar við Hamrahlíð að gönguleið við akstursrampa að Bauhaus í Höllum. Verkið var boðið út í lok maí og var verktakafélagið Glaumur ehf. hlutskarpast.  Sett var upp göngubrú, jarðvegsskipti námu 4.500 rúmmetrum og malbikaðir voru um 5 þúsund fermetrar. Gengið var frá ræsum og 38 ljósstólpar settir upp.  Stígurinn var lagður i gegnum skógræktarsvæðið í sátt við Skógræktarfélag Mosfellsbæjar og að þess beiðni voru tré sem felld voru skilin eftir til að brotna niður náttúrulega. Einnig tókst vel til með að færa gróðurþekju úr stígstæðinu og endurnýta á fláum við stíginn. Heildarkostnaður framkvæmda nam um 60 milljónum króna, sem deilist á verkkaupa.

Til baka