Tillaga að friðlýsingu í Mosfellsbæ

25/04/2014
Umhverfisstofnun og sveitarfélagið Mosfellsbær auglýsa hér með til kynningar tillögu að stofnun fólkvangs á hluta af jörðinni Bringum, efst í Mosfellsdal. Stærð svæðisins er 18,6 hektarar.
Markmið friðlýsingarinnar er að vernda hluta jarðarinnar Bringna til útivistar almennings, náttúruskoðunar og fræðslu. Friðlýsingin verndar auk þess sérstakar náttúru- og menningarminjar.

Bújörðin Bringur varð til sem nýbýli úr landi prestsetursins að Mosfelli árið 1856, en fór í eyði árið 1966. Jörðin er staðsett norðan Köldukvíslar, en þaðan er víðsýnt yfir Mosfellsdal og allt til hafs. Í Köldukvísl, rétt við túngarðinn, er Helgufoss. Vestan við fossinn er Helguhvammur, rústir Helgusels og Helguhóll, sem einnig er nefndur Hrafnaklettur. Sagan segir að þar sé mikil huldufólksbyggð. Seljarústirnar vitna um löngu horfna atvinnuhætti þegar búpeningur var hafður í seli yfir sumartímann. Þjóðtrúin hermir að Helgusel sé nefnt eftir Helgu dóttur Bárðar Snæfellsáss, en önnur skýring á nafngiftinni byggir á því að landsvæðið var fyrrum í eigu kirkjustaðarins á Mosfelli og upphafleg merking nafnsins væri þá hið helga sel.

Tillagan er aðgengileg hér og á heimasíðu Umhverfisstofnunar, auk þess sem hún liggur frammi á bæjarskrifstofum Mosfellsbæjar. Frestur til að skila inn athugasemdum og/eða ábendingum er til mánudagsins 12. maí 2014.

Frekari upplýsingar veitir Hildur Vésteinsdóttir, hildurv[hja]umhverfisstofnun.is, eða í síma 591-2000.
Til baka