Stór dagur hjá FMOS, framhaldsskólanum í Mosfellsbæ

20/12/2013
Í dag, föstudaginn 20. desember, fer fyrsta útskriftin í nýju húsnæði skólans fram. Þetta er því merk stund í sögu skólans. FMOS er að útskrifa 29 stúdenta, 25 af félags- og hugvísindabraut og 4 af náttúruvísindabraut. Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar mun afhenda verðlaun þeim sem fá hæstu einkunn.

Um 250 nemendur stunda nám við skólann sem hefur verið í bráðabirgðahúsnæði í Brúarlandi frá stofnun árið 2009. Eftir áramót hefst kennsla í nýju glæsilegu skólahúsnæði. Nemendum í skólanum mun fjölga jafnt og þétt næstu misseri en nýja húsið mun rúma um 500 nemendur. Skipulag kennslurýmanna í nýjum húsakynnum tekur mið af verkefnamiðuðum kennsluháttum FMOS með blöndu af litlum og stórum stofum og opnum rýmum. 

Breytingin fyrir nemendur verður mjög mikil því í nýju kennslurýmunum verður nóg pláss til að stunda námið, bæði í kennslustundum og til verkefnavinnu utan þeirra sem hefur sárlega vantað í þrengslunum í Brúarlandi. Mesta breytingin verður þó á aðstöðu til verklegrar kennslu í raungreinum og óhætt er að fullyrða að raungreinastofurnar í nýja húsinu verða með best búnu raungreinastofum á landinu. Starfsaðstaða kennara og annarra starfsmanna verður einnig bætt til mikilla muna. 

Allir velunnarar skólans eru velkomnir á þessa hátíð.

Til baka