Nýir tímar í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu

07/10/2019

Ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes hafa undirritað tímamótasamkomulag um metnaðarfulla uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára.

Samkomulagið felur í sér sameiginlega framtíðarsýn og heildarhugsun fyrir skipulagssvæðið. Markmiðið er að auka öryggi, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta og minnka tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun af völdum svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við loftslagsmarkmið stjórnvalda og sveitarfélaga.

Markmið samkomulagsins eru fjórþætt:

  • Tryggja greiðari samgöngur, minnka tafir og styðja við fjölbreyttari ferðamáta.
  • Byggja upp sjálfbært kolefnishlutlaust borgarsamfélag með bættum almenningssamgöngum, orkuskiptum og breyttum ferðavenjum.
  • Sérstök áhersla á umferðaröryggi og að draga stórlega úr slysum á fólki.
  • Rík áhersla á að tryggja samvinnu og sameiginlega sýn á verkefnið.

Á næstu 15 árum verður ráðist í einar umfangsmestu samgönguframkvæmdir sögunnar til að flýta úrbótum á höfuðborgarsvæðinu, sem að óbreyttum framkvæmdahraða tækju allt að 50 ár. Framkvæmdirnar ættu að stytta ferðatíma íbúa, bæði þeirra sem ferðast á bílum og með almenningssamgöngum.

Til baka