Umhverfisnefnd með opinn fund í FMOS

03/03/2014
Umhverfisnefnd Mosfellsbæjar hélt opinn fund um umhverfismál í Framhaldsskóla Mosfellsbæjar þann 26. febrúar s.l. Á fundinum var boðið uppá kynningu á umhverfisnefnd og Umhverfissviði bæjarins og einnig sátu nefndarmenn og sérfræðingar bæjarins fyrir svörum. Að því loknu voru opnar umræður um umhverfismál í Mosfellsbæ. Fundurinn var vel sóttur, bæði af almennum bæjarbúum og nemendum framhaldsskólans. Nemendur í umhverfisfræðum Fmos fjölmenntu á fundinn. Meðal þeirra málefna sem voru rædd voru stefna bæjaryfirvalda um sjálfbæra þróun, gegnsæi stjórnsýslunnar, grjótnám í Seljadal, skógræktarmál, ágengar plöntutegundir og ýmislegt fleira.
Þetta er í annað sinn sem umhverfisnefnd Mosfellsbæjar opnar nefndarfundi fyrir almenningi og það var mat nefndarmanna að sú nýbreytni að halda fundinn í samstarfi við framhaldsskólann og bjóða nemendum skólans sérstaklega á fundinn hefði tekist vel.
Til baka