Leikskólagjöld óbreytt og frístundaávísun hækkar

15/12/2014
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2015 ásamt þriggja ára áætlun. Gert er ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðunnar sem nemur um 35 mkr. Áætlaðar tekjur eru 8.046 mkr. Veltufé frá rekstri er um 9,5%.  

Í fjárhagsáætluninni fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir óbreyttum leikskólagjöldum og hækkun á frístundaávísun um 10%. Auk þess var samþykkt að koma á systkinatengingu sem niðurgreiðir enn frekar frístundir hjá barnmörgum fjölskyldum. Einnig var samþykkt að hækka niðurgreiðslur vegna dvalar í sjálfstætt reknum leikskólum. 

Bæjarstjórn samþykkti að tekjuviðmið tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega til útreiknings á afslætti fasteignagjalda verði breytt. Breytingin felur í sér rýmkun á tekjuviðmiðum þannig að fleiri úr þeim hópi njóta afsláttar af fasteignagjöldum. 

Gjaldskrárbreytingar

Frá og með 1.janúar 2015 taka gildi nýjar gjaldskrár skv. samþykkt bæjarstjórnar 3. desember sl. Gjöld hækka um 3,4% en þau hafa haldist óbreytt á yfirstandandi ári og er hækkunin því sú fyrsta á tveggja ára tímabili. Samkvæmt samþykktinni verða leikskólagjöld þó áfram óbreytt. Breytingarnar ná meðal annars til gjalda vegna mötuneytis í skólum og vistun í frístundaseljum. Gjaldskrárnar má finna á heimasíðum skólanna og Mosfellsbæjar

Vakin er athygli á því að breytingar á áskriftum þarf að tilkynna fyrir 20.desember ef þær eiga að taka gildi í janúar. Breytingar skulu tilkynntar gegnum Íbúagáttina. 

Fjárhagsáætlunina má sjá hér.

Til baka