Kynning á tillögu að nýju svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til 2040

27/03/2014
Nú stendur yfir forkynning í samræmi við 23. gr. skipulagslaga á tillögu að svæðisskipulagi, sem er enn í vinnslu. Forkynningin stendur til 22. apríl og er tillagan aðgengileg á heimasíðu SSH: http://ssh.is/svaedisskipulag/2040 en 3. og 10. apríl verður hún kynnt á opnum fundum á Skrifstofu SSH að Hamraborg 9 í Kópavogi.

Á vegum Svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins hefur undanfarin misseri verið unnið að gerð nýs svæðisskipulags í samræmi við samkomulag sveitarfélaganna frá 24. ágúst 2012 og verkefnislýsingu sem afgreidd var frá nefndinni 24. maí 2013.
Eðlismunur er á tillögu að nýju svæðisskipulagi og því skipulagi sem enn gildir og var samþykkt árið 2002. Horfið er frá hefðbundnu landnotkunarskipulagi yfir í stefnumótandi áætlun, þar sem sett eru fram leiðarljós og undir þeim lýst markmiðum og aðgerðum. Enginn eiginlegur skipulagsuppdráttur er í tillögu að nýju svæðisskipulagi heldur er stefnan skýrð nánar með þemakortum og skýringarmyndum.

Svæðisskipulagsnefnd telur mikilvægt að leita eftir viðbrögðum við tillögunni á þessu stigi og áður en hún verður þróuð frekar, og gengst nefndin því nú fyrir forkynningu á tillögunni, sbr. 2. mgr. 23. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 Forkynningin stendur til þriðjudagsins 22. apríl n.k. og er tillagan aðgengileg á heimasíðu SSH - http://ssh.is/svaedisskipulag/2040. Miðað er við að á sama tíma fái tillagan rýni hjá skipulagsnefndum sveitarfélaganna sem eru aðilar að skipulaginu. 

Á kynningartímanum verða opnir fundir á skrifstofu SSH, Hamraborg 9, Kópavogi, sem hér segir:

Fimmtudagur 3. apríl kl. 13:00 - 14:30 og 16:00 - 17:30

Fimmtudagur 10. apríl kl 13:00 - 14:30 og 16:00 - 17:30

Þeir sem vilja koma á framfæri ábendingum við tillögu að nýju svæðisskipulagi vinsamlega sendi þær á netfangið ssh@ssh.is eða beint til svæðisskipulagsstjóra: hrafnkell@ssh.is.

Til baka