Vorið er komið - Hreinsunarátak í Mosfellsbæ

17/04/2013

vorið er komiðDagana 19. apríl – 3. maí verður hreinsunarátak í Mosfellsbæ. Á því tímabili eru íbúar Mosfellsbæjar hvattir til að hreinsa í kringum hús sín og næsta umhverfi. Nú hillir í  vorið og því tímabært að fjarlægja rusl eftir veturinn.
Starfsmenn Áhaldahúss verða á ferðinni á þessu tímabili og fjarlægja garðaúrgang sem settur hefur verið út fyrir lóðamörk. Fólk er hvatt til að setja garðaúrgang í poka og binda greinaafklippur í knippi. Íbúar eru minntir á að klippa hekk og tré sem ná út yfir gangstéttir og stíga.

Gámar fyrir garðaúrgang verða einnig aðgengilegir  á þessu tímabili í hverfum bæjarins og verða þeir staðsettir á eftirtöldum stöðum: 

  • Holta- og Tangahverfi – Neðan Þverholts (milli Akurholts og Arnartanga)tiltekt að vori
  • Höfða og Hlíðahverfi – Vörubílastæði við Bogatanga 
  • Teiga- og Reykjahverfi – Skarhólabraut ofan Reykjavegar
  • Hlíðartúnshverfi – Við Aðaltún
  • Helgafellshverfi – Efst í Brekkulandi
  • Leirvogstunga – á afleggjara að Kiwanishúsi
  • Mosfellsdalur – Á bílastæði við Þingvallaveg.

HREINSUNARDAGAR Á OPNUM SVÆÐUM 20. APRÍL
Laugardaginn 20. apríl verður hreinsunarátak á opnum svæðum bæjarins og meðfram nýbyggingarsvæðum. Afturelding og skátafélagið Mosverjar munu að venju aðstoða við hreinsunina. Íbúar Mosfellsbæjar eru hvattir til að taka þátt.


Umhverfissvið Mosfellsbæjar

Til baka