Mosfellsbær efnir til átaks í sumarstörfum

03/05/2020

Mosfellsbær hefur ákveðið í ljósi þess ástands sem skapast hefur í atvinnumálum vegna Covid-19 faraldursins að efna til sérstaks átaks um sumarstörf fyrir ungmenni og námsmenn.

Í ár var gert ráð fyrir 70 sumarstörfum við stofnanir Mosfellsbæjar. Nú þegar hefur verið ráðið í þessi störf en í heildina bárust 145 umsóknir. Í ljósi atvinnuástands í samfélaginu er líklegt að erfitt geti verið fyrir aðra umsækjendur að fá vinnu annarsstaðar.

Síðustu daga hefur fyrirspurnum um sumarstörf fjölgað frá ungu fólki sem var búið að ráða sig í sumarvinnu en hefur nýlega fengið upplýsingar um að starfið standi þeim ekki lengur til boða. Viðbúið er að þessi hópur stækki frekar á næstu vikum.

Fjölgun starfa í ljósi bágs atvinnuástands

Til að mæta þeim hópi sem er án atvinnu í sumar hefur Mosfellsbær skipulagt tímabundin átaksstörf með sambærilegum hætti og boðið var upp á árunum 2009-2015.

Þannig hefur verið ákveðið að bjóða allt að 65 einstaklingum á aldrinum 16 og 17 ára fjölbreytt störf. Líkt og árið 2009 verður boðið upp á 140 klukkustunda vinnutímabil fyrir þennan aldurshóp.

Þessu til viðbótar verður boðið upp á 20 störf fyrir námsmenn 18 ára og eldri sem eiga engan eða takmarkaðan rétt á atvinnuleysisbótum. Þessi átaksstörf er í boði í samvinnu við Vinnumálastofnun og það átak sem sem ríkisstjórnin hefur boðað í tengslum við aðgerðir vegna Covid-19. Þannig er gert ráð fyrir 10 störfum fyrir 18-19 ára og 10 störfum fyrir 20 ára og eldri. Vinnutímabil fyrir þennan aldurshóp verður tveir mánuðir. Gert er ráð fyrir að kostnaður Mosfellsbæjar vegna þessara átaksstarfa í sumar nemi um 40 m.kr. og verður gerður sérstakur viðauki við fjárhagsáætlun vegna þessa.

Nánari upplýsingar um tilhögun umsókna um þessi störf verða kynntar á næstu dögum.

Til baka