Lykilleiðir hjólreiða á höfuðborgarsvæðinu

21/09/2021

Þessa dagana stendur yfir Evrópsk samgönguvika en sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa lagt áherslu á gott samstarf í samgönguvikunni. Sveitarfélögin hafa m.a. unnið að samræmdu hjólakorti sem sýnir lykilleiðir hjólreiða á höfuðborgarsvæðinu sem hafa verið merktar með samræmdum merkingum og auðkenndar hver með sínum lit.

Lykilleiðirnar eru helstu samgöngustígar milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og eru í sérstökum forgangi þegar kemur að sópun á sumrin og mokstri og hálkuvörnum að vetri til. Við litaval á lykilleiðum var stuðst við liti úr náttúru höfuðborgarsvæðisins á merktum leiðum, eins og hafinu, sólarlaginu og gróðri.

Leiðin meðfram strandlengjunni er blá, græna leiðin fer í gegnum Víðidal, Elliðaárdal, Fossvog, Öskjuhlíðina og endar í miðbæ Reykjavíkur. Rauða leiðin liggur frá Sæbraut við Kirkjusand, gegnum Garðabæ og Kópavog í miðbæ Hafnafjarðar. Fjólubláa leiðin liggur frá Elliðavogi í gegnum Elliðaárdal, Garðabæ og Kópavog í miðbæ Hafnarfjarðar. Gula leiðin liggur frá miðbæ Mosfellsbæjar í miðbæ Reykjavíkur um Elliðaárósa.

  • Blá: Strandleið
  • Græn: Reykjavík A – Reykjavík C
  • Rauð: Hafnarfjörður C – Garðabær C – Kópavogur C – RVK Borgartún
  • Fjólublá: Hafnarfjörður C – Garðabær A – Kópavogur A – RVK Mjódd
  • Gul: Mosfellsbær C – Reykjavík C

Hátt í 200 hjólavegavísar í hinum ýmsu stærðum verið settir upp á hjólaleiðunum og eiga að auðvelda vegfarendum að rata greiðlega milli sveitarfélaganna.

Markmiðið með litamerktum lykilleiðum og samræmdum merkingum er að bæta þjónustu við hjólreiðafólk, fjölga þeim sem hjóla og og auðvelda visvænar samgöngur um allt höfuðborgarsvæðið.

Til baka

Myndir með frétt