Menningarvorið er komið

22/04/2013

menningarvor íslÁ afmælisdag Halldórs Laxness þann 23.apríl verður menningardagskrá á bókasafni Mosfellsbæjar. Dagskráin er liður í Menningarvori sem er haldið nú í fjórða sinn.

Nú þegar hafa verið haldin tékkneskt og franskt kvöld sem voru mjög vel sótt.  Þykir við hæfi að enda á íslensku kvöldi til heiðurs íslandssögunum og Halldóri Laxness.

Óttar Guðmundsson geðlæknir sem er orðin þekktur fyrir greiningar sínar á persónum íslendingasagnanna mun koma og segja frá niðurstöðum sínum. Meðal annars af Agli Skallagrímssyni sem dvaldi í Mosfellsdal síðustu ævidaga sína og mun þar hafa falið silfur sitt eins og frægt er orðið. Fyrir þá sem ekki vita þá er skjaldarmerki Mosfellsbæjar tilvísun í silfur Egils og eiga Mosfellingar því nokkurt tilkall til þeirrar sögu.

Þóra Einarsdóttir söngkona ætlar að syngja lög Jóns Þórarinssonar, Jóns Ásgeirssonar og Jórunnar Viðar við kvæði Halldórs Laxness en undirleikari verður Helga Bryndís Magnúsdóttir.

Dagskráin byrjar klukkan 20.00, að venju er aðgangur ókeypis og allir velkomnir á bókasafnið.

Til baka