Helgafellsskóli afhentur Mosfellsbæ

08/09/2021

Helgafellsskóli var afhentur Mosfellsbæ í formlegri athöfn í skólanum þann 7. september að viðstöddum bæjarfulltrúum, nefndarmönnum í fræðslunefnd, starfsmönnum fræðslu- og frístundasviðs og umhverfissviðs Mosfellsbæjar.

Undirbúningur að byggingu Helgafellsskóla hófst í ársbyrjun 2015. Stýrihópur verkefnisins var skipaður bæjarstjóra, framkvæmdastjóra fræðslu- og frístundasviðs, framkvæmdastjóra umhverfissviðs, skólastjóra Helgafellsskóla auk verkefnastjóra verkefnisins þeim Óskari Gísla Sveinssyni, deildarstjóra nýframkvæmda hjá Mosfellsbæ og Söndru Dís Dagbjartsdóttur frá VSÓ.

Hönnun Helgafellsskóla var á höndum Yrki Arkitektar og VSB verkfræðistofa. Í ársbyrjun 2019 var 1.-4. áfangi skólans teknir í notkun og nú tveimur árum síðar eru 2.-3. áfangi skólans tilbúnir. Í þeim hluta skólans verður 7.-10. bekkur auk sérgreinastofa skólans eins og raungreinastofur, listasmiðjur og gróðurhús svo nokkuð sé nefnt. Þá er í þessum áfanga vel búinn hátíðarsalur.

Skólinn afhentur á réttum tíma og undir kostnaðaráætlun

Fyrirtækið Flotgólf vann að uppbyggingu 2.-3. áfanga Helgafellsskóla og tókst þrátt fyrir utanaðkomandi tafir að halda verkinu á áætlun. Mosfellsbær vil sérstaklega hrósa fyrirtækinu fyrir vandaða vinnu, góð og uppbyggileg samskipti á byggingartímanum og einstaka tillitssemi gangvart starfsemi þess hluta skólans sem starfaði á byggingartímanum. Eftirlitsaðili með verkinu var fyrirtækið Verksýn.

Kostnaðarrammi 2.-3. áfanga var áætlaður rúmir 2,3 milljarðar króna og er heildarkostnaður við byggingu þessa áfanga áætlaður um 98% af kostnaðarramma. Það er því ánægjulegt að segja frá því að verkefnið í heild er í senn innan kostnaðarramma og tímaramma sem allir þeir aðilar sem að verkefninu hafa komið geta verið stoltir af.

Til baka

Myndir með frétt