Bæjarráð Mosfellsbæjar skorar á Ríkisstjórn Íslands

22/10/2015

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum fimmtudaginn 15. október sl. að fela bæjarstjóra að senda Ríkisstjórn Íslands fyrirliggjandi áskorun bæjarráðs um að hún beiti sér fyrir breytingum á tekjustofnum sveitarfélaga. Jafnframt verði afrit sent öllum þingmönnum. Í áskoruninni eru tilteknar leiðir til að tryggja fjölþætta og sveigjanlega tekjustofna sveitarfélaga. Þar segir að ljóst sé að verði ekkert að gert mun rekstrarkostnaður sveitarfélaga hækka langt umfram tekjur þeirra á næstu mánuðum. Því liggi fyrir að við óbreyttar aðstæður munu sveitarfélög ekki geta staðið undir hlutverki sínu og skyldum á næstu misserum með sama hætti og verið hefur. Áskorunin er aðgengileg hér.


Áskorun
Bæjarráð Mosfellsbæjar skorar á ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á tekjustofnum sveitarfélaga til að tryggja að þeir séu í samræmi við þau mikilvægu verkefni sem sveitarfélögunum eru falin í nærþjónustu við íbúa.

Greinargerð:
Launakostnaður sveitarfélaga hefur hækkað umtalsvert á undanförnum misserum og fyrirséð er að hann hækki enn meira á næsta ári. Sveitarfélögin eru ekki ráðandi í kjarasamningagerð og stefnumörkun þeirra heldur fylgja þau annarsvegar þeim samningum sem gerðir eru á almennum markaði og þeim samingum sem ríkið gerir fyrir starfsmenn þess. Þessar launahækkanir vega hlutfallslega hærra fyrir sveitarfélögin þar sem hjá þeim starfa fjölmennir hópar sem þiggja lág laun fyrir sín störf. Því skila þessar launahækkanir sér ekki í sama mæli í auknum skatttekjum til sveitarfélaganna ólíkt því sem á sér stað hjá ríkinu. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa átt fundi undanförnu þar sem þau hafa farið yfir alvarlega stöðu í fjármálum sveitarfélaga bæði á höfuðborgarsvæðinu og um land allt. Í stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga 2014-2018 segir: „Sveitarfélögum skulu tryggðir nauðsynlegir tekjustofnar í samræmi við þau verkefni sem þeim eru falin í stjórnarskrá og lögum. Þeir skulu vera nægjanlega fjölþættir og sveigjanlegir í eðli sínu svo þeir geti staðið undir þeirri fjölbreyttu þjónustu sem íbúar þeirra kalla eftir.”

 

Við núverandi aðstæður er ekki hægt að halda því fram að tekjustofnar sveitarfélaga standi undir þessum markmiðum. Enn fremur er ljóst að verði ekkert að gert mun rekstrarkostnaður sveitarfélaga hækka langt umfram tekjur þeirra á næstu mánuðum. Því liggur fyrir að við óbreyttar aðstæður munu sveitarfélög ekki geta staðið undir hlutverki sínu og skyldum á næstu misserum með sama hætti og verið hefur.

Brýnt er að gera eftirfarandi breytingar:

 1. Sveitarfélög verði undanþegin virðisaukaskatti
  Starfsemi sveitarfélaga á ekki að mynda skattstofn fyrir ríkið. Til að koma í veg fyrir það er nauðsynlegt að endurskoða gagngert þær reglur sem gilda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af almennri starfsemi og fjárfestingum sveitarfélaga.

 2. Tryggja fjármögnun sveitarfélaga á málefnum fatlaðs fólks
  Mikilvægt er að tryggja fjármögnun á málaflokki fatlaðs fólks. Í fjárlagafrumvarpi 2016 er ekki gert ráð fyrir að ríkið komi með viðbótarfjármagn til að mæta miklum hallarekstri sveitarfélaganna á málaflokki fatlaðs fólks, þrátt fyrir að við yfirfærslu málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga hafi verið gert ráð fyrir að sveitarfélögin fengju fulla fjármögnun vegna verkefnisins.

 3. Fjármögnun kostnaðar vegna ferðamanna.
  Mikilvægt er að tryggja fjármögnun sveitarfélaga á þeim útgjöldum sem á þau falla vegna mikillar aukningar ferðamanna. 

 4. Tryggja fjármögnun sveitarfélaga á fjárhagsaðstoð og sérstökum húsaleigubótum
  Mikilvægt er að endurskoða hlutverk Jöfnunarsjóðs með það fyrir augum að tryggja fjármögnun sveitarfélaga á fjárhagsaðstoð og sérstökum húsaleigubótum. Hugsanlega má fjármagna útgjöld sveitarfélaga með því að þau fái hlutdeild í almenna hluta tryggingagjaldsins til að standa undir kostnaði við fjárhagsaðstoð og virkniúrræði fyrir notendur félagsþjónustu sveitarfélaga. Ljóst er að kröfur sem gerðar eru í atvinnuleysistryggingakerfinu útiloka frá bótarétti þá einstaklinga sem ekki hafa atvinnureynslu. Einnig hefur verið styttur verulega bótaréttur atvinnulausra með þeim afleiðingum að langtímaatvinnulausir lenda fyrr á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. 

 5. Tryggja sveitarfélögum hlutdeild í sköttum af umferð
  Sveitarfélög fái hlutdeild í sköttum af umferð, s.s. bensínskatti og olíugjöldum, til að standa að hluta undir útgjöldum þeirra vegna viðhalds- og stofnkostnaðar við gatna- og vegagerð.

 6. Sveitarfélög fái hlutdeild í fjármagnstekjuskatti
  Mikilvægt er að gera skattkerfisbreytingar sem tryggi að sveitarfélög fái hlutdeild í fjármagnstekjuskatti af arðgreiðslum til eigenda fyrirtækja. 

 7. Lækka innheimtuprósentu ríkisins vegna innheimtu útsvars
  Ríkið fær 0,5% af útsvari sveitarfélaga fyrir að annast innheimtu útsvars. Þegar þessu fyrirkomulagi var komið á var álagningarhlutfall útsvars tæplega helmingi lægra en nú er og þessi gjaldtaka mun minni í raun. Hækkun álagningarhlutfalls útsvars hefur ekki leitt til mikilla breytinga á innheimtuverkefninu sem slíku en hefur hins vegar stóraukið greiðslur sveitarfélaga til ríkissjóðs. 

Rétt er að minna á að hlutverk sveitarfélaga er ekki aðeins að veita íbúum sínum þjónustu, þótt það sé vissulega mikilvægt, heldur eru markmið þeirra einnig að stuðla að valddreifingu og samkeppni í samfélaginu, auka hagkvæmni og að styrkja lýðræðið með aukinni þátttöku íbúa. Sveitarfélög gegna þannig lykilhlutverki í lýðræðissamfélögum og er afar brýnt að haga málum þannig að þau geti gegnt því með sóma.

Til baka