NArt - norræn listavinnustofa

14/09/2018

Samhliða norrænu vinabæjarráðstefnunni sem haldin var í Mosfellsbæ um síðust helgi var haldin listavinnustofa að nafni „NArt - Nordic Art Works-hop“.

Tilgangur NArt er að skapa vettvang þar sem atvinnulistamenn geta hist, kynnst, unnið saman, gert tilraunir og búið til list saman. Markmiðið er að styrkja listræn tengsl norrænna listamanna og vonandi að skapa tækifæri til að vinna aftur saman í framtíðinni.

11 listamenn frá Mosfellsbæ, Skien, Uddevalla, Thisted og Loimaa unnu saman í tvo daga þar sem sköpunarkrafturinn réð ríkjum. Leikarar, tónlistarmenn, dansarar, hönnuðir og myndlistarmenn unnu saman þvert á listgreinar og útkoman varð gullfallegt mósaíklistaverk úr tónlist, leik og dansi. Auk þess var framhliðin á Bæjarleikhúsinu máluð listaverki.

Þema vinnustofunnar var ljósið og myrkrið og allt þar á milli. Allir komu með opinn hug og hjarta sem gerði það að verkum að orkan í hópnum var ótrúlega góð og allir náðu saman samstundis. Áherslan var lögð á það sem sameinar okkur - frekar en það sem skilur okkur að.

Frétt og mynd frá mosfellingur.is.

Til baka