Urðun á Álfsnesi verður hætt innan 4-5 ára.

29/10/2013
Urðað í grennd við MosfellsbæMengun frá Álfsnesi heyrir brátt sögunni til.

Ný gas- og jarðgerðarstöð tekin í notkun
Stjórn samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) hefur samþykkt eigendasamkomulag um meðhöndlun úrgangs og stefnt er að undirritun þess á aðalfundi  samtakanna föstudaginn 25. október. Í samkomulaginu felst að reist verður gas og jarðgerðarstöð í Álfsnesi en jafnframt verður Gými lokað og urðun sorps hætt.
Sú framtíðarsýn sem lögð er fram í eigendasamkomulaginu byggist á því að auka samstarf við önnur sorpsamlög með það að markmiði að Sorpa bs. hafi innan 3-5 ára aðgang að heildarlausn með jarð- og gasgerðarstöð, urðun, sem og brennslustöð.

 

Kvartanir vegna lyktarmengunar

Mosfellsbær hefur lagt sig fram við að gæta hagsmuna íbúa í Mosfellsbæ gagnvart málefnum Sorpu bs. allt frá því að Reykjavíkurborg ákvað að afleggja urðunarstað í Gufunesi og ákveðið var að koma honum fyrir í Álfsnesi árunum 1991-1992. Byggð í Mosfellsbæ hefur stækkað mikið á síðustu 20 árum og meðal annars í áttina að nesinu. Með uppbyggingu nýs hverfis í Leirvogstungu kom í ljós að lyktarmengunar vegna urðunar í Álfsnesi varð vart í nýju hverfi. Frá því að fyrstu kvartanir fóru að berast frá íbúum hefur Mosfellsbær með reglubundum hætti beitt sér fyrir því að Sorpa bs. grípi til nauðsynlegra aðgerða til að draga úr lyktarmengun. Sú vinna hefur skilað sér í breyttu vinnulagi við móttöku og urðun síðustu misseri en ekki hefur verið gengið nógu langt í þeim efnum hingað til.

Komið til móts við kröfur Mosfellinga

Samkvæmt samkomulaginu verður strax hafist handa við lokun á Gými, móttöku fyrir lyktarsterkan úrgang. Næstu 4-6 mánuði verður gripið til sérstakra ráðstafana til að loka af móttökuna við Gými þannig að engin losun fari fram undir berum himni. Gýmir verður þéttur eins og kostur er og komið upp öflugra afloftunarkerfi með þvotti/efnameðhöndlun og/eða kolasíu. Einnig verður reglum um forvinnslu á lyktarsterkum úrgangi breytt þannig að magn minnkar talsvert.
Lokunin verður í nokkrum áföngum og lýkur með byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar. Hætt verður að urða sorp í Álfsnesi innan 4-5 ára frá undirritun samkomulagsins og þeirri starfsemi fundin önnur staðsetning.

Bygging gas- og jarðgerðarstöðvar

Ljúka á sem fyrst undirbúningi að byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi þannig að hægt verði að taka endanlega ákvörðun um tæknilega hönnun, fjármögnun og byggingu hennar eigi síðar en 31. desember 2013. Samkvæmt samkomulaginu verður stöðin byggð í einum áfanga og tekin í notkun innan tveggja til þriggja ára. Stöðin verður staðsett norðanmegin á nesinu og því sem fjærst þéttbýli í Mosfellsbæ.
Þar verður hún lítið sýnileg en einnig verður krafist fullkomnustu tækni sem völ er á í mengunarvörnum. Móttökurými stöðvarinnar verði yfirbyggt og lokað, með millirými sem er þannig hannað að ekki sé opið beint úr vinnslurými og út til að koma í veg fyrir að lykt úr vinnslurými geti borist út í andrúmsloftið.

Góð niðurstaða fyrir Mosfellsbæ

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri telur þetta vera góða niðurstöðu fyrir íbúa Mosfellsbæjar. Ánægjulegt sé að komið hafi verið til móts við kröfur Mosfellsbæjar í flestum atriðum og að hægt verði að vinna að þessari áætlun til framtíðar í sátt við umhverfið.
„Hlustað hefur verið á raddir íbúa og þeir hafðir með í ferlinu. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir alla íbúa í Mosfellsbæ og reyndar á höfuðborgarsvæðinu í heild. Hugsa verður til framtíðar þegar sorpmál eru annars vegar og huga þá að þróun byggðar, tækni við að farga sorpi, sem fleytir hratt fram, og auknar kröfur til umhverfisverndar. Samfélagið í Mosfellsbæ hefur staðið þétt saman við að vinna í þessu máli og það er afar ánægjulegt að niðurstaðan skuli vera okkur að skapi.“

Frétt úr Mosfelling

Til baka