Drög að endurskoðuðu aðalskipulagi kynnt

28/05/2010
Lögð hafa verið fram til kynningar hér á heimasíðunni drög að endurskoðuðu aðalskipulagi Mosfellsbæjar til næstu tuttugu ára. Kynningin er nokkurskonar undanfari lögformlegrar auglýsingar skv. skipulags- og byggingarlögum enda er tillagan ekki fullunnin. Markmiðið með kynningunni er að upplýsa bæjarbúa og umsagnaraðila um stöðu verksins, og gefa þeim kost á að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum sem síðan verði hægt að hafa til hliðsjónar við fullvinnslu tilögunnar í upphafi nýs kjörtímabils.

Gildandi aðalskipulag var samþykkt í ársbyrjun 2003 en síðan hafa verði staðfestar 13 breytingar á því. Vinna að heildarendurskoðun aðalskipulagsins  hefur staðið yfir frá árinu 2007. Í upphafi verksins var lagt upp með það að endurskoðunin skyldi einkum beinast að eftirtöldum þáttum:
  • Vesturlandsvegur, sambúð vegar og byggðar í Mosfellsbæ.
  • Stefnumörkun fyrir byggð í Mosfellsdal
  • Framtíðar hesthúsahverfi
  • Ævintýragarður í Ullarnesbrekku
  • Stefnumörkun um frístundabyggð
Jafnframt yrðu skipulagsgögnin uppfærð og leiðrétt m.v. núverandi stöðu mála, ýmsar stefnumarkanir og skilgreiningar yfirfarnar,  lagt nýtt mat á þörf fyrir byggingarsvæði undir íbúðir og atvinnustarfsemi á skipulagstímabilinu og þéttbýlismörk skilgreind.

Af nýmælum sem fyrirliggjandi drög fela í sér ber helst að nefna breytta stefnumörkun varðandi Vesturlandsveg, þar sem sett er fram sú framtíðarsýn að hann verði lagður í stokk þar sem hann fer gegnum bæinn miðjan og þannig dregið úr klofningsáhrifum hans á byggðina. Í drögunum eru ekki miklar breytingar á afmörkun íbúðar- og atvinnusvæða, þar sem þau svæði sem skilgreind eru í gildandi skipulagi eru í stórum dráttum talin munu duga út skipulagstímabilið, þó það nái 6 árum lengra  inn í framtíðina en gildandi skipulag. Í greinargerð eru ýmis nýmæli varðandi framsetningu stefnu og markmiða í hinum ýmsu málaflokkum, og lagðar eru til ýmsar breytingar á skilgreiningum og skipulagsákvæðum, s.s. varðandi hverfisvernd og frístundabyggðir.

Gögnin sem hér liggja frammi eru þessi:

Þéttbýlisuppdráttur (drög) - pdf, 3,7 MB
Sveitarfélagsuppdráttur (drög) - pdf, 4,1 MB
Greinargerð – Stefna og skipulagsákvæði (drög) pdf, 2,6 MB


Áhugasamir bæjarbúar eru eindregið hvattir til að kynna sér þessi gögn og hvað þau hafa fram að færa á áhugasviði hvers og eins. Ábendingum og athugasemdum má koma á framfæri með tölvupósti á netfangið adalskipulag[hja]mos.is

Til baka