Tvær verkefnislýsingar: Deiliskipulag Þingvallavegar og aðalskipulagsbreyting Selholti v. víkingabæjar

22/12/2014

Mosfellsbær auglýsir hér með til kynningar tvær verkefnislýsingar skv. 30. og 40. gr. skipulagslaga:

Fyrir gerð deiliskipulags fyrir Þingvallaveg í Mosfellsdal og næsta umhverfi hans, frá stað skammt vestan Suðurárbrúar og austur fyrir Gljúfrastein. Markmið með deiliskipulaginu er að er að móta og ákveða gerð umferðarmannvirkja og umhverfis þeirra með þeim hætti að stuðlað sé að auknu öryggi allra þátttakenda í umferðinni á svæðinu og ásættanlegri sambúð byggðar og vegar.

Fyrir breytingu á aðalskipulagi í landi Selholts í Mosfellsdal, þ.e. að landnotkun á um 15 ha reit sunnan Leirtjarnar þar sem nú er landbúnaðarsvæði og opið óbyggt svæði breytist í afþreyingar- og ferðamannasvæði. Fyrir liggur viljayfirlýsing Mosfellsbæjar og félagsins Stórsögu um leigu á landi í því skyni að þarna verði byggður upp víkingabær með fornu lagi, sem veiti ferðamönnum innsýn í aðstæður og lifnaðarhætti landsmanna á þjóðveldisöld. Áformað er að samhliða aðalskipulagsbreytingunni verði gerð tillaga að deiliskipulagi reitsins.

Í verkefnislýsingum kemur lögum samkvæmt fram hvaða áherslur sveitarstjórn hefur við skipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, s.s. um kynningu og samráð gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaaðilum. Fyrirhuguð er sérstök kynning fyrir íbúa Mosfellsdals á lýsingu fyrir Þingvallaveg og verður hún auglýst síðar.

Verkefnislýsingarnar liggja frammi í Þjónustuveri Mosfellsbæjar á 2. hæð Þverholts 2, 270 Mosfellsbæ, og hér á heimasíðunni:

Þingvallavegur verkefnislýsing deiliskipulags, pdf 2 MB

Víkingabær Selholti lýsing aðalskipulagsbreytingar, pdf 1 MB

Athugasemdum og ábendingum varðandi lýsingarnar má skila til þjónustuversins eða undirritaðs og er æskilegt að þær berist fyrir lok janúar 2015.

22. desember 2014,

Skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar

finnur@mos.is

Til baka