Jól og áramót 2020 vegna Covid-19

30/11/2020

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknir hafa gefið út leiðbeiningar fyrir jól og áramót.

Það sem hafa þarf í huga yfir hátíðarnar vegna COVID-19

Aðventan er gengin í garð og undirbúningur hátíðanna nær fljótlega hámarki. Rík hefð er fyrir því að fólk komi saman og njóti samverunnar og alls þess sem hátíðarnar hafa upp á að bjóða. Fyrir mörg okkar verður þessi tími frábrugðinn því sem við erum vön líkt og með annað á þessu ári. Samt sem áður höfum við ýmsa möguleika á því að gleðjast saman. Sumar athafnir fela í sér meiri áhættu en aðrar og þessar leiðbeiningar innihalda ráðleggingar um það hvernig gott sé að haga málum yfir hátíðarnar.

 • Njótum rafrænna samverustunda.
 • Eigum góðar stundir með heimilisfólkinu.
 • Veljum jólavini (hverja við ætlum að hitta yfir hátíðarnar).
 • Hugum að heilsunni og stundum útivist í fámennum hópi.
 • Verslum á netinu ef hægt er.
 • Verum tilbúin með innkaupalista þegar farið er að versla.
 • Kaupum máltíðir á veitingastöðum og tökum með heim.
 • Ef við finnum fyrir einkennum sem bent geta til COVID-19 þá er mikilvægt að vera heima, fara í próf og vera í einangrun þar til niðurstaða liggur fyrir.

Heimboð og veitingar

 • Látum gesti vita um boðið með góðum fyrirvara svo þeir hafi tækifæri til að fara varlega dagana fyrir boðið.
 • Fylgjumst með þróun faraldursins.
 • Virðum fjöldatakmarkanir og tryggjum nándarmörk og einstaklingsbundnar smitvarnir.
 • Forðumst samskotsboð („pálínuboð") og hlaðborð.
 • Geymum handabönd, faðmlög og kossa til betri tíma.
 • Hugum að loftræstingu og loftum út á meðan á boðinu stendur.
 • Bjóðum upp á grímur ef gestir kjósa, þvoum hendur og sprittum okkur reglulega.
 • Takmörkum sameiginlega snertifleti og þrífum þá oft og reglulega.
 • Notum grímu og þvoum okkur reglulega um hendur á meðan við útbúum matinn, berum hann fram og göngum frá.
 • Takmörkum fjölda fólks í eldhúsinu eða þar sem maturinn er útbúinn og gengið er frá eftir matinn.
 • Takmörkum notkun á sameiginlegum áhöldum, svo sem tertuhnífum, kaffikönnum, mjólkurkönnum og svo framvegis.
 • Þvoum allt tau eftir hvert boð, svo sem dúka og tauservíettur.
 • Forðumst söng og hávært tal, sérstaklega innandyra.‍

Gisting

Algengt er að vinir og/eðafjölskyldumeðlimir dvelji saman yfir hátíðirnar á sama heimili. Mikilvægt er að vera búin að gera ráðstafanir ef gestir og/eða heimilisfólk veikjast af COVID-19 á meðan heimsókn stendur. Við þurfum að huga að sóttkví, einangrun,heilbrigðis­þjónustu og ferðalaginu heim ef um gesti er að ræða. Hvort sem við gistum að heiman eða fáum sjálf gesti yfir hátíðirnar þurfum við að huga vel að sóttvörnum, sérstaklega ef einhver er í áhættuhópi.

Líkt og á öðrum tímum þurfum við að huga að persónulegum sóttvörnum

 • Þvoum hendur reglulega.
 • Virðum nálægðarmörkin.
 • Loftum reglulega út.
 • Notum andlitsgrímur þegar við á.
 • Þrífum snertifleti reglulega.

Áríðandi er að við verndum viðkvæma hópa og verndum þá yfir hátíðarnar.

Gleðilega hátíð!

Til baka