Lagnaframkvæmdir við Skarhólabraut hindra umferð

07/04/2020

Framkvæmdir standa nú yfir við vatnslögn í Skarhólamýri þar sem verið er að tengja nýjan vatnstank á svæðinu. Framkvæmdirnar valda því að umferð, bæði akandi og gangandi vegfarenda, um Skarhólabraut raskast töluvert. Meðan á framkvæmdum stendur er gatan lokuð miðja vegu, við bílastæði við stikaða gönguleið og gegnumakstur því ekki mögulegur.

Einnig er umferð gangandi vegfarenda ekki möguleg á öruggan máta á meðan framkvæmdum stendur, þar sem ekki er óhætt að fara yfir vinnusvæðið og hjáleiðir ekki greiðfærar. Þeim sem vilja ganga á Úlfarsfell frá Skarhólabraut er ráðlagt að koma vestan megin að bílastæðinu. Aðkoma að bílastæðinu að austan er ekki möguleg þar sem skurðir og vinnuvélar hindra aðkomu. Þeir sem vilja koma austan megin geta þó nýtt sér reiðstíg til útivistar og göngu á Úlfarsfell.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki miðvikudaginn 8. apríl og því ættu aðstæður að vera komnar í fyrra horf fyrir páskafríið og umferð og útivist aftur möguleg án hindrana.

Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta getur haft í för með sér.

 

 

Til baka