Nafnasamkeppni, stefnumótunarfundur og framkvæmdastjóri

19/05/2011

Heilsuklasi logoHeilsuklasi Mosfellsbæjar var formlega stofnaður að Reykjalundi þann 28. apríl sl. en undirbúningur stofnunar klasans hefur staðið yfir í nokkurn tíma. Markmið heilsuklasans er að efla og byggja upp starfsemi á sviði lýðheilsu, heilsueflingar, endurhæfingar og heilsuferðaþjónustu í Mosfellsbæ.

Stofnendur klasans starfa flestir í heilsutengdri þjónustu í Mosfellsbæ og vilja auka og styrkja samstarf sín á milli.  Þess er vænst að samstarfið stuðli  að eflingu og uppbyggingu á starfsemi á sviði lýðheilsu, heilsueflingar, endurhæfingar og heilsuferðaþjónustu í Mosfellsbæ.

Í stjórn klasans voru kjörin: Jón Pálsson formaður, Jónína Sigurgeirsdóttir ritari, Snorri Hreggviðsson gjaldkeri, Vigdís Steinþórsdóttir, Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, Jón Magnús Jónsson og Björk Ormarsson. Stjórnin hefur ráðið Sigríði Dögg Auðunsdóttur framkvæmdastjóra heilsuklasans í hlutastarfi tímabundið.

Að sögn Jóns Pálssonar, nýkjörins formanns, mun heilsuklasinn koma öllum Mosfellingum að gagni. „Eitt helsta markmið klasans er að fjölga störfum í heilsutengdri þjónustu um helming, sem mun væntanlega hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Stefnt er á að þessi starfsemi verði jafnframt grunnstoð undir aðra starfsemi svo sem veitingarekstur,  matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu og fleira í Mosfellsbæ.“

Heilsuklasinn stendur nú fyrir samkeppni um nafn klasans og eru Mosfellingar hvattir til að taka þátt. Nánari upplýsingar má finna á slóðinni www.mos.is/heilsuklasi. Þá verður haldinn stefnumótunarfundur í Krikaskóla þriðjudaginn 31. maí kl. 20 þar sem öllum áhugasömum er boðið að taka þátt.

Til baka