Sunnudagsganga á Reykjaborg

11/09/2018

Á Degi íslenskrar náttúru, sunnudaginn 16. september kl. 14:00 verður boðið upp á sunnudagsgöngu upp á Reykjaborg. Um er að ræða létta göngu undir leiðsögn Ævars Aðalsteinssonar. Gangan er um 3 km og því tilvalin fjölskylduganga. Brottför er frá endastöð strætó innst á Reykjavegi við Suður-Reyki. Komið með og njótið frábærs útsýnis yfir Mosfellsbæ frá nýju hringsjánni.

Ævar Aðalsteinsson leiðir gönguna en hann hlaut nýverið umhverfisviðurkenningu Mosfellsbæjar fyrir ötult starf sitt í umhverfismálum. Hann hefur haft veg og vanda af stikun gönguleiða í fjöllum og fellum Mosfellsbæjar og verið ötull baráttumaður fyrir aukinni útivist og náttúruupplifun bæjarbúa í Mosfellsbæ.

Hvetjum alla áhugasama til að taka þátt og eiga góðan sunnudag saman í góðri hreyfingu og ekki skemmir að spáin lofar góðu.

Reykjaborg

Reykjaborg er fallegur klettahöfði, 252 m sem er áberandi í landslaginu ofan við Reykjahverfið suðaustan við Mosfellsbæ. Hægt er að ganga á Reykjaborg úr öllum áttum en þaðan er skemmtilegt útsýni til norð vesturs yfir Mosfellsbæ og út á Leiruvog. Á Reykjaborg má ganga til dæmis frá Suður-Reykjum í Reykjahverfi og frá Hafravatni. Gestabók er á Reykjaborg.

Þegar lagt er af stað frá bílastæðinu við Suður-Reyki er gengið áleiðis upp Húsadal og upp með Varmá, fyrst að sunnanverðu og síðan yfir göngubrú og haldið áfram að norðanverðu upp með Varmánni. Þegar komið er að litlum læk sem rennur úr Borgarvatni er farið aftur yfir Varmána og gengið til suðurs upp með læknum. Við Borgarvatn er síðan stefnan tekin til vesturs og beina leið á hnjúkinn.

Til baka