Opnunarhátíð Helgafellsskóla

08/01/2019

Þriðjudaginn 8. janúar var opnunarhátíð Helgafellsskóla. Hátíðin hófst á skrúðgöngu frá Brúarlandi yfir í Helgafellsskóla þar sem nemendur og starfsfólk skólans gengu fylktu liði og tóku með sér hið góða og notalega andrúmsloft Brúarlands í krukkum sem var svo sleppt út í Helgafellsskóla.

Gestir athafnarinnar voru nemendur og starfsfólk skólans, fulltrúar í ráðum og nefndum bæjarins og fulltrúar þeirra fyrirtækja sem komið hafa að byggingu skólans. Við opnunina fluttu bæjarstjóri, Haraldur Sverrisson og formaður fræðsluráðs, Kolbrún Þorsteinsdóttir ávörp þar sem þau fóru yfir aðdragandann að stofnun skólans og þeirri hugmyndafræði sem skólinn mun byggja á. Nemendur með aðstoð bæjarfulltrúa opnuðu svo skólann með formlegum hætti.

Opið hús sunnudaginn 13. janúar.

Sunnudaginn 13. janúar verður opið hús í skólanum þar sem öllum bæjarbúum og öðrum þeim sem áhuga hafa á skólastarfinu er boðið að koma í heimsókn í skólann.

Helgafellsskóli verður opinn frá kl. 13 til 15 og verða uppákomur og skemmtiatriði flutt af nemendum skólans.

Skólastarf í Helgafellsskóla hefst mánudaginn 14. janúar í skólanum en í upphafi verða um hundrað nemendur í 1. til 5. bekk. Innan skamms hefst svo leikskólastarf en í upphafi verður um að ræða eina deild fyrir elstu árganga leikskólabarna.

Til baka

Myndir með frétt