Vel heppnað skuldabréfaútboð - vaxtakjör aldrei betri

04/07/2013

Merki MosfellsbæjarMosfellsbær efndi á dögunum til skuldabréfaútboðs á verðtryggðum skuldabréfum og sáu markaðsviðskipti H.F. Verðbréfa um útboðið. Sala skuldabréfaflokksins MOS 13 1 gekk vonum framar og voru seldar 600 milljónir á ávöxtunarkröfunni 3,05% en flokkurinn er með jöfnum afborgunum og lokagjalddaga á árinu 2034. Nýverið hefur einnig verið tekið lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 300 milljónir til 11 ára en þau bréf eru með 2,65% verðtryggðum vöxtum. 

Mosfellsbær hefur því á þessu ári lengt í lánasafni sínu og lækkað meðalvexti þar sem bænum hafa aldrei boðist lán í íslenskum krónum á svo lágum vöxtum, en undanskilin eru lán til byggingar félagslegs húsnæðis.

Haldið hefur verið fast utan um rekstur bæjarins síðustu ár og er það að skila sér í traustri stöðu nú. Sveitarfélagið var rekið með afgangi á síðasta ári og hefur veltufé frá rekstri verið nýtt til að fjármagna þær framkvæmdir sem ráðist hefur verið í frá efnahagshruninu árið 2008. Lánsféð fer því að mestu í að endurfjármagna eldri skuldir. Mosfellsbær hefur staðið í miklum framkvæmdum síðustu misseri. Í bænum rís nú nýr framhaldsskóli og hjúkrunarheimili var einnig vígt á dögunum. Þá er í byggingu íþróttahús sem hýsa á fimleika og bardagaíþróttir.

Rekstur Mosfellsbæjar á árinu 2012 gekk vel og bera kennitölur úr rekstri vott um trausta stöðu bæjarsjóðs. Veltufé frá rekstri voru 676 milljónir eða 11% af rekstrartekjum og framlegð frá rekstri var 15%. Skuldahlutfall sveitarfélagsins er vel innan þess 150% hámarks sem kveðið er á um í lögum.

 

 

Til baka