Breytingar á Akstursþjónustu fatlaðs fólks

29/06/2020

Framundan eru breytingar á Akstursþjónustu fatlaðs fólks sem ekið hefur undir merkjum Strætó síðastliðin 5 ár. Um mánaðamótin mun þjónustan verða aðskilin frá starfsemi Strætó og skipt verður um nafn, útlit og skipulag. Þjónustan mun bera heitið Pant akstur og heimasíðan verður pantakstur.is. Pant akstur mun sinna akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu, að undanskildum Kópavogi og Hafnarfjarðarbæ.

Markmiðið er að gera þjónustuna einfaldari, nútímalegri og betur sniðna að þörfum hvers notanda. Til að mynda verður ekki lengur takmarkaður ferðafjöldi á hvern einstakling og ákvæði sem skerða rétt á þjónustu, svo sem hjá þeim sem þiggja bílastyrk frá TR, verða felld úr gildi. Aksturstími verður einnig lengdur á stórhátíðardögum og verður héðan í frá ekið til kl. 22:00 á aðfangadegi og gamlársdegi og til kl. 24:00 á öðrum stórhátíðardögum. Sérstakt app er væntanlegt til notkunar í haust en það mun gera notendum kleift að panta ferðir og fylgjast með bílunum sínum í rauntíma.

Stefnt er að því að semja við Hópbíla um að sinna akstrinum næstu 5-7 árin. Stjórn Pant aksturs verður sett saman úr fulltrúum frá Reykjavíkurborg, Garðabæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi. Erlendur Pálsson verður sviðstjóri þjónustunnar.

Nánari upplýsingar um allar breytingarnar eru aðgengilegar inn á akstursthjonusta.is.

 

 

Til baka