Í túninu heima

Engin formleg dagskrá á vegum Mosfellsbæjar í ár

Í túninu heima er árleg bæjarhátíð Mosfellinga sem haldin er síðustu helgina í ágúst sem er afmælismánuður bæjarins. Hátíðin stendur venjulega í fjóra daga og lýkur með útnefningu bæjarlistamanns og afhendingu umhverfisviðurkenninga.

Undirbúningi hátíðarinnar í ár lauk í byrjun sumars en neyðarstjórn Mosfellsbæjar hefur komist að þeirri niðurstöðu að í ljósi gildandi samkomutakmarkana verði ekki um formleg hátíðarhöld að ræða á vegum Mosfellsbæjar. 

Minni viðburðir sem rúmast innan samkomutakmarkana geta hins vegar átt sér stað á ábyrgð þeirra sem halda þá. En engir viðburðir verða, eins og áður segir, á vegum Mosfellsbæjar að undanskildu Tindahlaupi Mosfellsbæjar og útnefningu bæjarlistamanns og umhverfisviðurkenningar.

 


Bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima, er haldin síðustu helgina í ágúst ár hvert. Hátíðin er sannkölluð fjölskylduhátíð sem stendur í þrjá daga og geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi.

Fjölbreyttir menningarviðburðir eru í boði, tónleikar, myndlistasýningar, útimarkaðir og íþróttaviðburðir svo fátt eitt sé nefnt. 

Hátíðin hefst formlega á föstudagskvöldi með skrúðgöngu, varðeld og brekkusöng í Álafosskvos.

Hápunktur hátíðarinnar er á laugardagskvöld þegar stórtónleikar fara fram á Miðbæjartorgi og stíga ávallt landsþekktar hljómsveitir ásamt heimamönnum á svið.

Litadýrð í Mosfellsbæ

Bærinn er klæddur í hátíðarbúning með skreytingum þar sem hvert hverfi hefur sinn lit.

  • Gulur: Hlíðar, Höfðar, Tún og Mýrar.
  • Rauður: Tangar, Holt og miðbær.
  • Bleikur: Teigar, Krikar, Lönd, Ásar, Tungur og Mosfellsdalur.
  • Blár: Reykjahverfi og Helgafellsland.

Vilt þú taka þátt?

Íbúar, félagasamtök og fyrirtæki í Mosfellsbæ eru hvattir til að taka virkan þátt í hátíðinni. 

Ef einhverjir luma á hugmyndum eða vilja vera með viðburð Í túninu heima hjá sér, þá má senda tölvupóst á ituninuheima[hja]mos.is.

Sölubásar í Álafosskvosinni

Eins og áður verða sölubásar staðsettir  í Álafosskvosinni. Til að fá upplýsingar um markaðinn í Álafosskvos bendum við á Facebook síðu markaðarins.

Mosfellsbæjarpeysan

Saga ullariðnaðar á Íslandi hefur verið samofin sögu Mosfellsbæjar í gegnum tíðina. Í tilefni bæjarhátíðarinnar hefur Mosfellsbær látið hanna „Mosfellsbæjarpeysu“ og má finna uppskriftir að peysunni hér að neðan. Peysan ber merki Mosfellsbæjar og hægt er að velja mynstur eftir mismunandi hverfislit.

Prjónauppskriftir

Hátíðarlagið Í túninu heima

  • Lag: Sigrún Harðardóttir.
  • Texti: Agnes Wild.
  • Myndband: Ágúst Elí Ásgeirsson.
  • Hljóðupptaka: Arnór Sigurðarson.
  • Hljóðfæraleikur: Arnór Sigurðarson, Flemming Viðar Valmundsson, Loftur S. Loftsson, Sigrún Harðardóttir, Kristjón Daðason og Örn Kjærnested.