Heilsa og hreyfing

Mosfellsbær er sannkallaður útivistarbær þar sem nálægðin við ósnortna náttúru býður upp á fjölda möguleika til útivistar og hreyfingar. Úrval af gönguleiðum er í boði auk margvíslegra leiða á fjöllin og fellin umhverfis bæinn.

Í Mosfellsbæ eru tvær frábærar sundlaugar, Lágafellslaug og Varmárlaug.

Ævintýragarðurinn býður upp á klifur- og þrautatæki og þar er einnig að finna frisbígolfvöll og 1500m2 hundagerði.

Á Stekkjarflöt er stórt svæði með leiktækjum, útigrill og vatnsfontur. Þar er einnig hinn vinsæli Ærslabelgur sem er opinn daglega frá kl. 10:00 - 22:00 yfir sumarið. 

Strandblakvöllur er nálægt Íþróttamiðstöðinni að Varmá og hefur blakdeild Aftureldingar umsjón með vellinum.

Fuglaáhugafólk er hvatt til að kynna sér fuglaskoðunarhúsið í Leiruvogi þar sem gefst einstakt tækifæri til að skoða fjölda vaðfugla sem þar halda til.